Jákvæðnifárið

Inga Dagný Eydal skrifar:

Það er dásamlegt að vera jákvæður. Það er að segja að tileinka sér það, að sjá frekar jákvæðar hliðar tilverunnar, sjá glasið hálffullt fremur en hálftómt og finna sólskinsbletti í heiði þó ekkert sólskin sé. Sumir eru fæddir með þennan stórkostlega hæfileika og virðast bara ekkert fyrir því að hafa að brosa framan í veröldina og þeir eru sífellt góð fyrirmynd fyrir okkur hin. Okkur sem þurfum bara heilmikið að hafa fyrir því að vera gleðimegin í lífinu og þörfnust áminningar reglulega. Víst er það að almenn fýla og neikvæðni er slæmur ávani sem virðist aukast við hverja iðkun og mjög margir eru sjálfskipaðir dómarar í annarra lífi. Því er nú verr og miður.

En svo er nauðsynlegt að muna að fýlupúkar sem ráðast að fólki með dómhörku og oft skítkasti eru ekki það sama og að horfast í augu við það að lífið er meira en eintómt sólskin og sæla. Það er það auðvitað alls ekki og jafn nauðsynlegt og það er að gleðjast yfir góðu er líka nauðsynlegt að horfast í augu við veikleikana, sorgirnar og missinn í tilverunni.

Vinkona mín sem glímir við veikindi og depurð benti mér einmitt á þessa þversögn í samfélaginu og hún sagðist eiga erfitt með að segja satt þegar fólk spyrði hana að líðan. Í þjóðfélagi þar sem allir blómstra á samfélagsmiðlum, svamla í heitum pottum með hvítvín í glasi, fljúga til útlanda og eru alltaf glaðir og brosandi,- (og fallegir), er erfitt að segja annað en „bara allt fínt” þegar fólk spyr hvernig maður hafi það.

Fólk hringir voða mikið á „vælubílinn”, þolir ekki þegar „fullorðið fólk vælir” og hefur enga samúð með því að fólk eigi við erfiðleika að stríða ef það sést ekki að utanverðu í hverju það felst. Það jafnvel fellur í þá gryfju að ákveða fyrir aðra hvernig það geti leyst sín mál og að viðhorfsbreyting sé það eina sem þurfi til. Jafnvel fagfólk glímir við þann vanda að ætla sér að ákveða fyrir fólk hvernig því eigi að líða og fara offari í því að „snúa” fólki til jákvæðni og bættrar heilsu. Það þekki ég sjálf úr mínu gamla fagi.

Okkur er samt öllum hollt að muna að okkur skortir yfirhöfuð forsendur til að dæma aðra. Glaða og fallega fólkið á Facebook er oft á tíðum ekki sérstaklega hamingjusamt og það er afskaplega auðvelt að birta bara góðu stundirnar. Allir eiga sínar döpru stundir í lífinu, og jafnvel þeir sem virðast hafa allar forsendur til þess að vera glaðir, eru það ekki. Og það er ekki okkar að dæma það. Það er allt annað að gangast við því að okkur líði ekki alltaf vel en að væla að óþörfu.

Það má kannski segja að mesta neikvæðnin sé að ætlast til þess af öðrum að þeir séu „hressir”, þegar þeir eru það alls ekki og dæma þá fyrir heiðarleikann. Og sama gildir um gagnrýni, við rjúkum upp til handa og fóta ef einhver leyfir sér að gagnrýna eitt og annað í samfélaginu og hreinlega eigum erfitt með andardrátt af vandlætingu. „Varúð tuðstatus”, er frasi sem við hnýtum á gagnrýnina svona til að vera örugglega ekki tekin af lífi. Sem er undarlegt því sérhvert gott samfélag þarf gagnrýni sem leiðir til framfara. Gagnrýni sem sett er fram án þess að hjóla í „manninn” og án þess að viðhafa dónaskap.man-person-red-white.jpg

Jákvæðni og hressileiki er alls ekki góður eiginleiki ef hann er bara á yfirborðinu og á samfélagsmiðlum og til þess fallinn að fela baktal og illgirni við eldhúsborðin heima. Ég allavega hvatti vinkonu mína til að muna að hún ein veit hvernig henni líður og ef að fólk þoli ekki að heyra það, þá verði hún að láta sér það í léttu rúmi liggja. „113 vælubíllinn” er sko líka nauðsynlegur í neyð, ekkert síður en sjúkrabíllinn og löggubíllinn og það er fátt betra en að mæta skilningi þegar mannig líður illa. Að svo mæltu sendi ég sólskinskveðjur til allra sem vilja þiggja.

Eina leiðin til að vera besta útgáfan af sjálfum sér er að gangast við sjálfum sér.

Pistillinn birtist upphaflega inn á bloggsíðu Ingu; raedaogrit.wordpress.com

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó