Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir stefnir á að leiða lista Vinstri grænna á Akureyri í sveitarstjórnarkosningum næsta vor. Þessu greinir hún frá í færslu á Facebook í dag.
Hún segist hafa fengið þá spurningu nokkuð oft undanfarið hvort að Vinstri græn ætli að bjóða fram í Akureyrarbæ og hvort hún ætli sér að halda áfram að leiða listann. Hún segir að svarið við báðum spurningum sé já.
„Vinstrihreyfingin grænt framboð er enn lifandi stjórnmálaafl þó það hafi dottið af þingi. Í dag eigum við sveitarstjórnarfulltrúa víðsvegar um landið og á flestum stöðum ætlum við okkur að halda þeim og bjóða fram í svipaðri mynd og áður til að stuðla að auknum jöfnuði, náttúruvernd og kvenfrelsi,“ skrifar Jana.
„Við merkjum hægrisveiflu í samfélaginu, viðhorf til jafnréttis fer versnandi og umhverfis- og náttúruvernd er ekki í tísku. Þess vegna tel ég VG enn vera nauðsynlegt stjórnmálaafl á landsvísu og þess vegna vil ég leiða lista VG á Akureyri fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar. Nærþjónustan skiptir okkur öll máli og við þurfum að nota okkar sameiginlegu sjóði í að auka jöfnuð í samfélaginu og tryggja góða þjónustu.“


COMMENTS