Jólatónleikar kammerkórsins Hymnodiu í Akureyrarkirkju

Hymnodia

Hymnodia

Jólatónleikar kammerkórsins Hymnodiu fara fram í Akureyrarkirkju, fimmtudaginn 22. desember kl. 21. Flutt verður  í rökkri við jólaljós hugljúf og hátíðleg jólatónlist. Jólatónleikar Hymnodiu frá Akureyri hafa ávallt verið gríðarlega vel sóttir. Á þeim er sköpuð kyrrlát stemmning, slökkt er á raflýsingu kirkjunnar, ekkert er talað og engar þagnir milli laga. Tónleikarnir mynda því rúmlega klukkustundar langa heild, þar sem tónleikagestir geta látið þreytu líða úr sér, notið kyrrðar og samveru rétt fyrir jólin.

Eins og venjulega fær Hymnodia góðan gest á tónleikana. Að þessu sinni er það sellóleikarinn Steinunn Arnbjörg Stefánsdóttir sem leikur með kórnum. Steinunn, sem búsett er í París, hefur vakið mikla eftirtekt og aðdáun fyrir einstaklega fagran sellóleik, en hún er þekktust fyrir að leika barokk- og endurreisnartónlist. Hymnodia vill stuðla að nýsköpun en um leið virða venjur í efnisvali. Á tónleikunum verða tvö ný lög frumflutt, en þau eru eftir þá Michael Jón Clarke og Sigurð Flosason. Auk þess verða fluttir gamlir góðir jólasálmar, ensk endurreisnarlög, gömul þýsk og norræn jólalög og að sjálfsögðu flytur kórinn tvö lög sem alltaf eru sungin á jólatónleikunum, Það aldin út er sprungið og Heims um ból, í 7 radda hátíðarútsetningu.

Miðaverð er 2500 kr og er forsala hafin á tix.is Menningarsjóður Akureyrar styrkir Hymnodiu

UMMÆLI