Jón Stefánsson og listaskóli Matisse

Margrét Elísabet Ólafsdóttir

Margrét Elísabet Ólafsdóttir

Þriðjudaginn 15. nóvember kl. 17-17.40 heldur Margrét Elísabet Ólafsdóttir, lektor í listgreinakennslu við Háskólann á Akureyri, Þriðjudagsfyrirlestur í Listasafninu á Akureyri, Ketilhúsi undir yfirskriftinni Jón Stefánsson og listaskóli Matisse. Í fyrirlestrinum fjallar hún um dvöl Jóns Stefánssonar í listaskóla Henri Matisse í París og þau áhrif sem Jón hafði í kjölfarið á íslenska myndlistarmenn. Margrét Elísabet er doktor í list- og fagurfræði frá Parísarháskóla og leggur stund á rannsóknir á íslenskri myndlist. Hún hefur starfað sem sýningarstjóri, gagnrýnandi, háskólakennari og blaðamaður. Aðgangur er ókeypis.

Jón Stefánsson er einn af frumherjum íslenskrar myndlistar. Hann hafði mikil áhrif á aðra myndlistarmenn sem voru honum samtíða, s.s. Ásgrím Jónsson, Kristínu Jónsdóttur og Þorvald Skúlason. Jón hóf myndlistarnám í Kaupmannahöfn en fór síðan til Parísar og sótti listaskóla Henri Matisse. Matisse stofnaði skólann árið 1908 og starfrækti hann í þrjú ár. Ætlun hans var að miðla hugmyndum sínum um málaralist til nemenda sem flestir komu frá Norðurlöndunum og Þýskalandi. Þremur árum síðar komst hann að þeirri niðurstöðu að þau áform hefðu mistekist.

Fyrirlestraröðin er samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Gilfélagsins, Verkmenntaskólans á Akureyri, Myndlistarfélagsins og Háskólans á Akureyri og er öllum opin. Á meðal annarra fyrirlesara vetrarins eru Gústav Geir Bollason, myndlistarmaður, og Lárus H. List, formaður Myndlistarfélagsins.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó