Jónsmessuhátíð og setning Listasumars 2018


J
ónsmessuhátíð á Akureyri er 24 tíma hátíð sem hefst kl. 12 laugardaginn 23. júní og stendur til kl. 12 sunnudaginn 24. júní. Á dagskránni eru 24 viðburðir út um allan bæ og fjölbreytnin er í fyrirrúmi.

Listasafnið á Akureyri býður öllum frítt inn á sýningarnar „Bleikur og grænn“ og „Fullveldið endurskoðað“ en upptaktur að Jónsmessuhátíð verður fjölskylduleiðsögn um fyrri sýninguna kl. 11 sem verður fylgt eftir með listasmiðju fyrir börnin. Vasaljósaleiðssögn um sömu sýningu verður síðan kl. 1 um nóttina. Einnig verður boðið upp á leiðsögn um sýninguna „Fullveldið endurskoðað“ kl. 15 og ætti enginn að láta fram hjá sér fara að forvitnast um þessi verk sem gefa Akureyrarbæ líf og lit í sumar.

Margt verður í boði fyrir alla fjöslkylduna. Í Glerárlaug verður alvöru sumarpartý frá kl 16-18 með uppblásnum strandleikföngum, grænum plöntum og DJ. Veðurspáin er góð það skiptir engu máli því tryggt er að sumarið og sólin verða í Glerárlaug frá kl. 16-18.

Fornbíladeild Bílaklúbbs Akureyrar keyrir gamla klassíska rúntinn um Hafnarstrætið kl. 21 til að minnast þess að 50 ár eru síðan að skipt var yfir í hægri umferð á Íslandi. Hluti leiðarinnar verður ekinn með gamla laginu, gegnt núverandi akstursstefnu.

Á sunnudagsmorgun verður boðið upp á brauð til að gefa öndunum á Andapollinum morgunmat og eftir það verður sögustund í boði Amtsbókasafnsins í Minjasafnsgarðinum frá kl. 9-11. Við hvetjum fólk til þess að mæta með nesti, sperrt eyru og njóta morgunsins saman.

Í Davíðshúsi verður leiðsögn um leyndardóma hússins kl. 14 þar sem dregið verður fram ýmislegt sem er ekki bersýnilegt og býður Iðnaðarsafnið til göngu um Gleráreyrar kl. 15 þar sem hægt verður að fræðast um þann iðnað sem þar hefur verið í gegnum tíðina.

Í Ketilhúsinu breða Vandræðaskáldin á leik kl. 20 á laugardagskvöld og verða til vandræða á Jónsmessunni. Það má búast við hnyttnum textum og skemmtilegum sögum með smá ádeilu í bland, eins og þeirra er von og vísa. Þá tekur við Draumur á Jónsmessunótt sem svífur yfir og allt um kring í Lystigarðinum.

Setning Listasumars verður síðan kl. 15 á sunnudeginum í Hofi en þar verða atriði af Listasumri sýnd og litríkar veitingar í boði.

Þetta er aðeins brot af því sem hægt verður að njóta á 24 stunda Jónsmessuhátíð á Akureyri. Nánari upplýsingar er að finna á facebooksíðu Jónsmessuhátíðarinnar.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó