KA sigraði KR og Þór tapaði gegn Fylki í Lengjubikarnum

KR 2 – 3 KA
0-1 Elfar Árni Aðalsteinsson 9
1-1 Óskar Örn Hauksson 24
2-1 Óskar Örn Hauksson 57
2-2 Daníel Hafsteinsson 68
2-3 Frosti Brynjólfsson 69
2-3 Óskar Örn Hauksson 86, misnotað víti

KA fer heldur betur vel af stað í Lengjubikarnum en liðið vann nú góðan 2-3 sigur á KR í Egilshöll og er með fullt hús stiga ásamt Breiðablik eftir þrjár umferðir.

Leikurinn fór fram í Egilshöll í Reykjavík og fóru okkar KA menn svo sannarlega vel af stað. Elfar Árni Aðalsteinsson skoraði fyrsta mark leiksins strax á 9. mínútu eftir góða sendingu frá Hrannari Birni.

Óskar Örn Hauksson jafnaði metin fyrir KR á 24. mínútu og var staðan 1-1 þegar flautað var til hálfleiks. Óskar var svo aftur á ferðinni á 57. mínútu þegar hann kom KR-ingum yfir í 2-1 en KA liðið er ekki beint þekkt fyrir að gefast upp og Daníel Hafsteinsson jafnaði metin á 68. mínútu eftir góðan undirbúning hjá Hallgrími Mar.

Frosti Brynjólfsson kom KA aftur yfir aðeins mínútu síðar og það aftur eftir undirbúning Hallgríms. Mikið líf var í leiknum og fengu KR-ingar vítaspyrnu á 86. mínútu en Cristian Martinez í marki KA varði glæsilega frá Óskari Erni og sá til þess að KA fór með öflugan 2-3 sigur af hólmi.

Næsti leikur KA er heimaleikur í Boganum gegn Breiðablik þann 11. mars næstkomandi. Má reikna með að það verði úrslitaleikur um sigur í riðlinum enda liðin jöfn á toppnum með 5 stiga forskot á næsta lið.

 

ÞÓR 0-2 FYLKIR
01 Oddur Ingi Guðmundsson  22′
02 Hákon Ingi Jónsson úr víti  50′

Þórsarar fara öfugt við KA menn illa af stað í Lengjubikarnum, en liðið tapaði í dag gegn Fylki 0-2 í Boganum.

Fyrir leikinn hafði Þór leikið einn leik, gegn Grindavík í Grindavík en sá leikur endaði með markalausu jafntefli.

Næsti leikur Þórsara fer einnig fram í Boganum en þá mæta Selfyssingar í heimsókn sunnudaginn 4. mars.

 

Sambíó

UMMÆLI