Múlaberg

KA skellti KR í FrostaskjóliMynd: Þórir Tryggva

KA skellti KR í Frostaskjóli

KA gerðu sér lítið fyrir og unnu 3-1 sigur á KR í Frostaskjóli nú í kvöld. Leikurinn var í 2. umferð Pepsi Max deildarinnar en í fyrstu umferð gerði KA 0-0 jafntefli við HK.

Hallgrímur Mar Steingrímsson átti þátt í öllum þrem mörkum KA manna en hann kom gestunum yfir strax á 11. mínútu leiksins með góðu skoti sem Beitir Ólafsson í marki KR náði ekki að verja.
Hallgrímur var svo aftur á ferðinni þegar hann lagði upp annað mark KA með góðri aukaspyrnu af hægri kanti þegar Brynjar Ingi Bjarnason skallaði boltann í netið.
KR náði að klóra í bakkann í uppbótatíma í fyrri hálfleik með marki frá Guðjóni Baldvinssyni af stuttu færi.

KR var betri aðilinn í seinni hálfleik en náðu ekki að skora jöfnunarmarkið þrátt fyrir talsverða yfirburði. KA menn hins vegar bættu við þriðja marki sínu og Hallgrímur sínu öðru í leiknum þegar hann skoraði glæsilegt mark á 79. mínútu leiksins.

KA því með 4 stig eftir fyrstu tvær umferðirnar í Pepsi Max deildinni. Næsti leikur KA er á miðvikudaginn, 12. maí, þegar liðið fær Leikni frá Reykjavík í heimsókn en sá leikur mun að öllum líkindum verða spilaður á gervigrasvelli Dalvíkur þar sem Greifavöllurinn er ekki tilbúinn.

UMMÆLI

Sambíó