KEA hagnaðist um 943 milljónir


Á aðalfundi KEA, sem fram fór þann 26. apríl kom fram að hagnaður félagsins á síðasta ári nam 943 milljónum króna eftir reiknaða skatta en var 671 milljónir árið áður. Þetta kemur fram á heimasíðu félagsins. Tekjur námu tæpum 1.115 milljónum króna og hækkuðu um 272 milljónir á milli ára. Eigið fé um síðustu áramót var rúmir 7,2 milljarðar króna og heildareignir tæpir 7,7 milljarðar á sama tíma.  Eiginfjárhlutfall er um 95%.

„Mörg þeirra fyrirtækja sem KEA á eignarhluti í gengu vel á síðasta ári og endurspeglast það í um 776 milljóna króna jákvæðri gangvirðisbreytingu fjáreigna og var ávöxtun þeirra eigna ásættanleg á síðasta ári. Á árinu fjárfesti félagið m.a. í auknum hlut í fjárfestingasjóðnum Tækifæri sem og Sparisjóði Höfðhverfinga.  Arðsemi eigenda félagsins er einnig góð sé horft til þeirra viðskiptakjara sem eigendur njóta í gegnum KEA kortið en áætluð afkoma af þeim viðskiptakjörum er 500 milljónir króna umfram reikningshaldslega afkomu á síðasta ári,“ segir á vef KEA.

Félagsmönnum KEA heldur áfram að fjölga og eru þeir nú tæplega 20.000 eða um 53% allra íbúa á félagssvæði KEA sem eru Eyjafjarðar- og Þingeyjarsýslur.

Á aðalfundi félagsins í gær voru Birgir Guðmundsson, Hildur Ösp Gylfadóttir og Ólafur Jónsson endurkjörin í stjórn félagsins.


UMMÆLI

Sambíó