Kolfinna María Níelsdóttir hefur verið ráðin leiðtogi markaðs- og viðburðamála hjá Drift EA. Hún bætist þar með í kjarnateymi Driftar EA sem hefur það að markmiði að efla frumkvöðla- og nýsköpunarumhverfi á Norðurlandi.
Kolfinna er með BA-gráðu í félagsvísindum frá Háskólanum á Akureyri og stundaði meistaranám í ferðamálafræði og samfélagsgreiningum við Álaborgarháskólann í Kaupmannahöfn. Hún býr yfir víðtækri reynslu af markaðs- og nýsköpunarstarfi, en áður starfaði hún m.a. sem verkefnastjóri kynningarmála hjá Samtökum sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE) og hefur síðustu fjögur ár leitt markaðs- og nýsköpunarstarf hjá Eimi, félags um bætta nýtingu auðlinda á Norðurlandi.
„Það er mikill fengur að fá Kolfinnu til liðs við Drift EA. Hún kemur í teymið með einstaka reynslu og breiða þekkingu sem mun styrkja starfsemi Driftar enn frekar og það markmið að skapa öflugt nýsköpunar- og frumkvöðlaumhverfi á landsbyggðinni“, segir Sesselja Ingibjörg Barðdal, framkvæmdarstýra Driftar EA.
Kolfinna hefur gegnt lykilhlutverki í verkefnum á borð við nýsköpunarverkefnið Norðanátt og hafði m.a. umsjón með skipulagi Fjárfestahátíðar á Siglufirði. Hún hefur víðtæka reynslu af stefnumótun og miðlun, meðal annars á sviði samfélagsmiðla, vefsíðugerðar og markaðsefnis, kynningarstarfi í alþjóðlegum samstarfsverkefnum og skipulagningu viðburða af ýmsum toga.
Hún segist full tilhlökkunar fyrir nýju stöðunni og þeim verkefnum sem framundan eru.
„Á sínu fyrsta starfsári hefur Drift EA þegar fest sig í sessi sem mikilvægur vettvangur fyrir fyrirtæki, frumkvöðla og nýsköpun á Norðurlandi. Það er afar spennandi að fá tækifæri til að vera hluti af þeirri vegferð og taka þátt í uppbyggingu starfsins. Verkefnin framundan eru stór og spennandi og ég hlakka til að vinna markvisst að því að styrkja samfélagið, efla tengingar og auka sýnileika þess starfs sem fram fer á Eyjafjarðarsvæðinu sem hefur svo áhrif langt út fyrir landshlutann,“ segir Kolfinna María.
Drift EA var stofnað í lok 2024 með það að markmiði að styðja við frumkvöðla, nýsköpun og atvinnulífið á Akureyri og í Eyjafirði með aðstöðu, faglegri ráðgjöf, fjármagni, tengslaneti og viðburðum sem efla nýsköpun og verðmætasköpun í heimabyggð.


COMMENTS