KortEr til að fækka bílferðum

KortEr til að fækka bílferðum

Orkusetur og Vistorka kynntu á dögunum tæknilausnina KortEr. Þessi nýja tæknilausn er ætluð til þess að fækka bílferðum og auka vægi göngu- og hjólreiða. Þetta kemur fram í umfjöllun á vef fréttastofu RÚV.

KortEr er tæknilausn sem sýnir hversu langt er hægt að komast hjólandi eða gangandi á innan við korteri frá viðkomandi upphafspunkti. Um er að ræða vefsíðu, snjallforrit og sérpantað kort, sem hægt er að nálgast á vefsíðu KortErs.

Í samtali við RÚV segir Sigurður Friðleifsson, framkvæmdastjóri Orkuseturs, nafnið KortEr vera leik að orðum. „Þetta er kortalausn og við töldum korter í tíma vera eitthvað sem allir hugsa sig ráða við. Það tekur hvort eð er tíma að fara á bíl. Það sem þú getur gert á korteri það ræðurðu við“.

„Það er alveg bráðnauðsynlegt hvort sem það er út frá loftslagsmálum eða lýðheilsumálum að fá fólk til að til þess að hreyfa sig meira og skilja bílinn örlítið meira eftir,“ segir Sigurður.

Hugmyndin fæddist hjá Orkusetri og Vistorku og var síðan þróuð í samstarfi við Stefnu og Geimstofuna. Akureyrarbær, Reykjavíkurborg og Umhverfis- og auðlindaráðuneytið styrktu síðan verkefnið og fengu hönnunar- og auglýsingastofuna TVIST til að búa til kynningarefni.

Lausnin virkar hvar sem er í heiminum enda kortagrunnurinn byggður á Google maps. Prentaða útgáfan er þó enn sem komið er bundin við höfuðborgarsvæðið og Akureyri.

Sigurður telur fólk oft vanmeta hversu langt ganga og hjólreiðar geti komið því. „Við þurfum ekki að fá það marga til þess að skilja bílana eftir í örfáar ferðir til þess að verkefnið sé algjörlega þess virði,“ segir Sigurður í samtali við RÚV.

Skoðaðu KortEr með því að smella hér.

UMMÆLI