Kosningaáherslur Sjálfstæðisflokksins kynntarMynd: Sjálfstæðisflokkurinn/ islendingur.is

Kosningaáherslur Sjálfstæðisflokksins kynntar

Fundur flokksráðs og formanna Sjálfstæðisflokksins var haldinn um helgina. Á fundinum var samþykkt ítarlega stjórnmálaályktun þar sem kosningaáherslur flokksins er að finna undir yfirskriftinni „Land tækifæranna“.

Frelsi og ábyrgð einstaklingsins, mannréttindi og jafnræði, eru hornsteinar stefnu Sjálfstæðisflokksins. Jöfn tækifæri, menntun og fjárhagslegt sjálfstæði einstaklinga eru grunnur góðra lífskjara og jafnréttis. Atvinnufrelsi og eignarréttur eru órjúfanlegur hluti frjáls samfélags og forsenda þess að Ísland sé land tækifæranna. Svo hljóðar byrjunin á stjórnmálaályktun Sjálfstæðisflokksins. 

Sjá einnig: Logi kynnti kosningastefnu Samfylkingarinnar í dag

Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á ábyrga efnahagsstjórn sem sögð er vera forsenda þess að lífkjör á Íslandi haldi áfram að batna. Flokkurinn segist ætla að halda áfram að lækka skatta og hrinda í framkvæmd grænni orkubyltingu með því að nýta innlenda orku. Samgöngur skulu verða nútímalegar, greiðar og öruggar um allt land, með valfrelsi og fjölbreytni að leiðarljósi. Tryggingakerfi eldri borgara verður að endurskoða frá grunni og hækka á frítekjumark atvinnutekna í 200 þúsund krónur á mánuði. Jafnframt boðar flokkurinn að tryggingakerfi öryrkja verði stokkað upp.  Áhersla er lögð á stafrænar lausnir í heilbrigðis- og velferðarþjónustu. Flokkurinn telur nauðsynlegt að móta nýja velferðar- og heilbrigðisstefnu á breiðum grunni í opinberum rekstri og einkarekstri með framtíðarsýn sem tekur til menntunar heilbrigðisstarfsfólks, tækniþróunar og þarfa fólks.

Kosningaáherslur Sjálfstæðisflokksins:

 • Ábyrg efnahagsstjórn – forsenda þess að lífskjör á Íslandi haldi áfram að batna. 
 • Réttur til heilbrigðisþjónustu tryggður – ný þjónustutrygging setji fólk í fyrsta sæti. 
 • Græn orkubylting – Ísland taki forystu í orkuskiptum með því að nýta græna innlenda orku. 
 • Tryggingakerfi eldri borgara endurskoðað frá grunni og frítekjumark atvinnutekna hækkað strax í 200 þúsund krónur á mánuði. 
 • Lægri skattar – í þágu heimila og fyrirtækja. 
 • Öflugra og fjölbreyttara atvinnulíf – lægri álögur, einfaldara regluverk og hvatar til nýsköpunar. 
 • Stafrænt Ísland – betri þjónusta, hraðari afgreiðsla, auðveldara aðgengi og einfaldara líf.
 • Uppstokkun á tryggingakerfi öryrkja – styrkja fjárhagslegt sjálfstæði og auka möguleika til atvinnuþátttöku. 
 • Nútímalegar, greiðar og öruggar samgöngur um allt land – uppbygging öflugri innviða með valfrelsi og fjölbreytni að leiðarljósi. 
 • Frjáls alþjóðaviðskipti – höldum áfram að opna markaði um allan heim fyrir íslenskum útflutningi. 
 • Stafræn bylting í heilbrigðis- og velferðarþjónustu. 
 • Aukin fjölbreytni í menntakerfinu – til að halda í við öra þróun samfélags og þarfir atvinnulífs.

Sjá má stjórnmálaályktun Sjálfstæðisflokksins í heild með því að smella hér.


Kaffið.is fylgist með Alþingiskosningunum í haust með áherslu á Norðausturkjördæmi. Hér má finna fleira greinar og annað gagnlegt efni tengt kosningunum.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó