Kristnes á tímamótum

María Pálsdóttir stendur í stórræðum í Kristnesi.

Næstkomandi sunnudag verða 100 ár liðin frá því að tekin var ákvörðun um að hefja söfnun til byggingar heilsuhælis á Norðurlandi. Þann 10. júní árið 1918 tóku kvenfélagskonur í Eyjafirði formlega ákvörðun um að fara af stað með söfnunina. Seinna á árinu voru sendir út söfnunarlistar um allt land og ávörp birt í blöðum til almennings. Allt gerðist þetta á fullveldisárinu með upphaf sitt í ákvörðun kvenna í hjúkrunarfélaginu Hjálpinni í Saurbæjarhreppi. Ákvörðunin í júní 1918 og vinnan sem fylgdi í kjölfarið skilaði sér með vígslu Kristneshælis í Eyjafirði 11 árum síðar, þann 1. nóvember 1927.

Á þeim rúmu 90 árum sem liðin eru frá vígslunni hefur hlutverk staðarins tekið umtalsverðum breytingum. Eftir tímabil stöðnunar lítur nú út fyrir að hans bíði nýtt og spennandi hlutverk. Nú 100 árum eftir að konur hófu söfnun fyrir stofnuninni koma þær enn mikið við sögu í þeirri uppbyggingu sem nú á sér stað í Kristnesi. Eins og mörgum er kunnugt hefur María Pálsdóttir unnið að því hörðum höndum um nokkurt skeið að opna setur um sögu berklanna á Kristnesi seinna á árinu. Handtökin eru ófá, t.a.m. safnar María ýmsum munum fyrir setrið svo sem gömlum lækningatólum, sendibréfum, myndum o.fl. Má með nokkrum sanni segja að nýi og gamli tíminn mætist á Kristnesi þessi dægrin.

Örlagarík saga sem nær áratugi aftur í tímann gengur þannig í endurnýjun lífdaga með fyrirhuguðu setri og tveimur nýútgefnum bókum um Kristnes. Árin 2016 og 2017 gaf Grenndargralið út bækurnar Í fjarlægð og Lífið í Kristnesþorpi. Bækurnar gefa góða mynd af daglegu lífi fólks í eina öld á Kristneshæli og í Kristnesþorpi. Í tilefni af aldargamalli ákvörðun eyfirskra kvenna um að hefja söfnun fyrir heilsuhæli á Norðurlandi býður Grenndargralið upp á sérstakt tilboðsverð á bókunum tveimur saman út júnímánuð en nánari upplýsingar má finna á facebook síðu Grenndargralsins. 

Kristnesbækurnar Í fjarlægð og Lífið í Kristnesþorpi

UMMÆLI

Sambíó