Kvikmyndarisar taka upp með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands

Kvikmyndarisar taka upp með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands

Þrír bandarískir risar í kvikmyndaiðnaði hafa fengið Sinfóníuhljómsveit Norðurlands til að spila tónlist við bíómyndir sínar. Meira en hundruð manns koma að verkefninu og standa nú upptökur yfir í Hofi. Þetta kemur fram í fréttaumfjöllun RÚV.

Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson, tónlistarstjóri Menningarfélags Akureyrar, segir í samtali við RÚV að hann megi ekki gefa upp hverjir bandarísku risarnir séu.

Undanfarin ár hefur Sinfóníuhljómsveitin tekið þátt í upptökum á kvikmyndatónlist. Þorvaldur segir að staðsetningin á Akureyri og gæði hljómsveitarinnar heilli. „Þeir kjósa að koma til Íslands og kjósa sérstaklega að koma til Akureyrar og í Hof af því það þykir ofsalega flott að koma í svona fullkomna tónleikahöll þar sem verið er að taka upp alþjóðlega tónlist úti í sveit eiginlega, þó við köllum auðvitað Akureyri borg,“ segir Þorvaldur í samtali við RÚV.

Þorvaldur segir að það séu mörg verkefni framundan. „Ég má reyndar segja frá því að í ágúst er Sony að taka upp stóran tölvuleik hérna. Svo er Atli Örvarsson, sem er náinn samstarfsmaður verkefnisins, að fara að taka upp nýjustu seríuna sína sem er svona alþjóðleg sjónvarpssería,“ segir Þorvaldur að lokum.

UMMÆLI

Sambíó