NTC netdagar

Læknamistök á Akureyri – Kona ítrekað send heim þrátt fyrir mörg einkenni heilablóðfalls

Kolbrún Eva Helgadóttir skrifar.

Kolbrún Eva Helgadóttir skrifar.

Kolbrún Eva Helgadóttir skrifaði pistil á facebook síðu sína í gær um alvarleg læknamistök sem móðir hennar varð fyrir á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Hún lýsir því hvernig móðir hennar datt á heimili sínu að kvöldi til þann 26.september en hún var ein heima þar sem eiginmaður hennar var á sjó. Hún lá því alla nóttina á gólfinu þar til að systir Kolbrúnar kom í heimsókn til hennar morguninn eftir. Þá var hún flutt með sjúkrabíl á sjúkrahúsið þar sem hún var skoðuð.

„Mamma er lögð inn. Hún var með háan blóðþrýsting. Hún var lögð inn frá 26 sept til fimmtudags 29.sept. Tekið var af henni sterkt verkjalyf sem hún hefur tekið í fjölda ára vegna meiðsla í bílslysum. Þeir töldu það vera ástæðuna af hverju hún datt og mömmu voru gefin slatti af lyfjum í staðinn.”

Þá er hringt í eiginmann hennar og föður Kolbrúnar og dettur honum strax í hug að um heilablóðfall sé að ræða, frekar en áhrif lyfja, þar sem hún hefur misst föður sinn og eitt systkini af völdum heilablóðfalls. Einnig er annað systkini hennar lamað af völdum þess.
Hann kemur því heim af sjó föstudaginn 30.sept og sér að það er ekki allt með felldu hjá móður Kolbrúnar. Hann fer því með hana á bráðamóttöku þann 2.október.

„Mamma er byrjuð að vera eitthvað skrítin. Komin með lömun í hægri hendina og tal farið að verða skrítið. Hún er skoðuð og blóðþrýstingurin er ekki góður. Unglæknirinn sagði að þetta væri ekki heilablóðfall fyrst hún væri ekki komin með lömun í andliti. Unglæknirinn tók ekki mark á því sem pabbi sagði við sig að hún væri búin að missa föður, 1 systkinni og eitt lamað í hjólastól eftir heilablóðfall.
Mamma sagði alltaf að það væri ekkert að henni. Mamma kvartar aldrei. Pabbi er sendur með hana heim um kvöldmatarleytið. Þeir virtust vera búnir að ná jafnvægi á blóðþrýstingnum eitthvað niður. Þeir töldu að tal hennar væri út af lyfjunum sem þeir létu hana á.”

Mánudaginn 3.október var móðir Kolbrúnar svo aftur flutt með sjúkrabíl á sjúkrahúsið þegar það reyndist nánast ómögulegt að vekja hana. Þá var hún orðin alveg lömuð í hægri hendinni og dró hægri fót á eftir sér. Enn og aftur var hún send heim.
Þann 5.október fer Kolbrún í heimsókn til móður sinnar og þá var henni búið að hraka enn meira. Hún gat lítið orðið tjáð sig og var orðin lömuð í andliti. Þá er aftur kallað til sjúkrabíls og hún flutt á sjúkrahúsið.

„Ég fer með mömmu í sjúkrabílnum. Pabbi hittir okkur á bráðamóttökunni. Sami unglæknir tekur á móti mömmu síðan í síðustu komu. Hann sér hvernig hún er og sér að hún er komin með lömun. Mamma er send strax í sneiðmyndatöku.Ég gleymi því aldrei þegar unglæknirinn kom og sagði okkur fréttirnar. Mamma væri með heilablóðfall. Hún var komin með 3 tappa í höfuðið og komin í lífshættu. Hann sagði að það hefðu verið gerð hræðileg mistök. Ég sá að pabbi var reiður. Hann sagði við læknirinn: ég var búin að segja ykkur þetta en þið hlustuðu ekki. Ég brotna gjörsamlega þarna inni og brjálast. Ég öskra á læknirinn hágrátandi og sagði að ég væri ekki að fara missa mömmu. Það hefði verið alveg nógu erfitt að missa Þórlaug.“

Í framhaldinu kom yfirlæknirinn og talaði við fjölskylduna. Hann staðfesti það að um mistök hefði verið að ræða en hann hefði aldrei frétt af þessu öllu saman, þetta var í fyrsta skiptið sem hann hafði heyrt af máli móður Kolbrúnar.

„Við fengum þær fregnir að það væri of áhættusamt að setja hana í bráðaaðgerð suður. Því sekkurinn í hálsslagæðinni gæti skotið fleiri töppum upp í höfuð eða sekkurinn gæti losnað. Þá væri þetta búið. Þannig að það þurfti að reyna ná mömmu stöðugri til að geta farið í aðgerð. Læknirinn sagði að það gæti allt gerst á meðan. Við tók erfiður tími í von og ótta. Læknarnir takmörkuðu heimsókna tímann okkar. Vegna þess að mamma mætti ekki við miklu það gæti allt farið af stað. Þeir yrðu að reyna halda blóðþrýstingnum stöðugum. 
Við fengum leyfi læknana að leyfa barnabörnunum hennar að koma til að kveðja til öryggis.”

Þriðjudaginn 11.október var mamma Kolbrúnar orðin stöðug og komin suður til þess að fara í aðgerð. Kolbrún ásamt systrum sínum og föður kvöddu hana fyrir aðgerðina, enda óvíst að hún myndi hafa þetta af.

„Læknir talar við pabba og og lætur vita að aðgerðin hefði gengið vel. Þeir náðu sekknum úr hálsslagæðinni. Mamma var á gjörgæslu einn sólahring eftir aðgerð. Mamma tók ótrúlegum framförum eftir aðgerð, meðan hún lá inni. Mamma liggur svo inni á sjúkrahúsinu á Akureyri í framhaldinu til 17.okt og er útskrifuð þaðan. Hún fór í endurhæfingu á Kristnesi til 8.des. Mamma hefur náð eiginlega mjög góðum árangri í tali en hún þarf heimahjúkrun og töluverða umönnun enn í dag. Hún gengur sjálf eitthvað en þarf stuðning stundum. Hún getur ekkert notað hægri hendi við hluti en hún hefur samt náð árangri að geta lyft hendinni. En fingurnir eru alveg máttlausir. Mamma þarf sjúkraþjálfun og það þarf líka að baða hana. Svo þarf oft að hjálpa henni með aðra hluti.
Mamma var ekki góð líkamlega áður en hún fékk heilablóðfall en hún er margfalt verri í dag eftir heilablóðfallið.”

Yfirlæknirinn viðurkenndi það fyrir fjölskyldunni að þetta hefði ekki þurft að fara svona. Það hefðu einfaldlega verið gerð mistök. Kolbrún bætir við að lokum:

„Unglæknirinn hefur aldrei beðið mömmu fyrirgefningar þrátt fyrir að hafa viðurkennt mistök og að hafa ekki hlustað á pabba. Eina sem þurfti var ein myndataka til að útiloka heilablóðfall. En nei fyrst mamma var ekki með lömun í andliti þá var þetta ekki heilablófall. Þrátt fyrir að vera með mörg önnur einkenni.
Er sparnaðurinn í heilbrigðiskerfinu orðin svo mikill að ekki hafi mátt senda mömmu í þessa einu sneiðmynd? Það kostar sinn pening veit ég en kostnaðurinn var þúsund sinnum meiri fyrir kerfið.

Það er ekki auðvelt að horfa upp á mömmu sína frekar bjargalausa.Svo er svo skrítið að mamma sé á biðlista með heimahjúkrun. ”

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó