Lætur af störfum hjá Akureyrarbæ eftir tæplega 50 ára starfsferil

Lætur af störfum hjá Akureyrarbæ eftir tæplega 50 ára starfsferil

Ragna Frímann Karlsdóttir lætur af störfum hjá Akureyrarbæ á næstu vikum eftir tæplega 50 ára starfsferil. Ragna, sem er 66 ára, er Akureyringur vikunnar á Facebook-síðu Akureyrarbæjar.

„Þetta hefur verið góður og gefandi tími. Ég byrjaði sem 15 ára unglingur á elliheimilinu Hlíð og leysti þá af konur sem fóru í sumar-, jóla- og páskafrí. Þá var algengt að unglingar kæmu inn í þeirra stað. Ég fann strax hvað þessi vinna átti vel við mig – mér hefur alltaf fundist gott og gefandi að umgangast eldra fólk,“ segir Ragna í samtali við Akureyrarbæ.

Síðustu áratugina hefur hún starfað hjá stuðningsþjónustunni, sem áður hét heimaþjónustan, bæði sem deildarstjóri og í öðrum stöðum. „Mér finnst alltaf jafn gaman að vera á gólfinu og fara í vitjanir til skjólstæðinga. Þetta er afar þakklátt starf og ég hef eignast marga vini. Inn á milli skjólstæðinganna eru margir einstæðingar, og oft erum við einu heimsóknirnar sem fólkið fær,“ segir Ragna.

Ragna segir starfið hafa breyst mikið á þessum árum. „Í dag snýst það um að þjónusta fólk frá fæðingu til dauða, svo þjónustan er afar fjölbreytt. Þegar ég byrjaði var ég til dæmis að aðstoða á heimili þar sem móðirin var veik og faðirinn útivinnandi. Ég hjálpaði til með stelpurnar þeirra tvær, hélt heimili, bakaði, saumaði og sá um börnin. Í dag erum við ekki mikið að fara inn á heimilin að baka, en við styðjum áfram við þar sem ríkja erfiðleikar.“

Hún viðurkennir að tilfinningin yfir því að hætta sé blendin. „Ég ætlaði fyrst að hætta 1. september en fann að ég var ekki tilbúin. Eftir sumarfríið mitt hugsaði ég hins vegar með mér, jæja, Ragna mín, þetta er orðið gott. Og nú er ég sátt. Það verður gott að fara inn í desember, setja upp jólaljósin og hafa það huggulegt.“

En hvernig ætlar hún að eyða tímanum þegar hún hættir að vinna? „Ég hreyfi mig mikið og hlakka til að kíkja á starfið hjá Virkum efri árum. Við hjónin erum líka dugleg að ferðast til útlanda og munum halda því áfram. Við eigum son hér í bænum og tengdadóttur sem eiga tvö börn, og ég mun hjálpa til með þau. Auðvitað mun ég sakna vinnunnar, og sérstaklega skjólstæðinganna og vinnufélaganna – enda hefur þetta verið frábær tími. Ég held hins vegar að mér eigi ekkert eftir að leiðast – mér leiðist aldrei.“

Viðtal: Akureyrarbær á Facebook sem birtir viðtal við Akureyring vikunnar í hverri viku. Smelltu hér til að skoða Facebook-síðu Akureyrarbæjar.

Ljósmynd: Axel Darri

COMMENTS