Leiðir ekki hugann að því að hún sé ein af fáum konum í náminu

Leiðir ekki hugann að því að hún sé ein af fáum konum í náminu

Margrét Dana Þórsdóttir leggur stund á nám í vélstjórn við Verkmenntaskólann á Akureyri, VMA, námsbraut þar sem karlar hafa í gegnum tíðina verið í miklum meirihluta. Margrét setur það síður en svo fyrir sig að sigla á móti straumnum. Í viðtali á vef VMA í dag segir Margrét ekki einu sinni leiða hugann að því að hún sé ein af fáum konum í náminu.

Margrét segist vön því að vera í minnihlutahóp úr verktakabransanum sem hún hefur tengst frá blautu barnsbeini þar sem að flestir vinnufélagar séu karlar. Hún segir að í raun hafi ekkert annað komið til greina en að læra vélstjórn. Hjá fjölskyldufyrirtækinu Skútabergi ehf. hefur Margrét unnið á vélum undanfarin ár og nýtir hvert tækifæri til þess að fara á suðausturhornið að vinna.

Margrét segir að vélstjórnarnámið sé vissulega massíft og krefjandi og því þurfi að leggja mikið á sig. En það sé allt í lagi því námið sé mjög áhugavert og gefandi.

Rætt er nánar við Margréti á vef VMA þar sem má einnig lesa meira vélstjórnarnámið og reynslu Margrétar af því. Smelltu hér til að lesa á vef VMA.

Mynd með grein: VMA.is

COMMENTS