Leik- og dagvistunarmál eru lykilmál

Halldór Arason skrifar:

Fyrir um ári eignuðumst við konan mín okkar þriðja barn. Heilbrigðan son til viðbótar við son og dóttur sem við áttum fyrir. Hann var varla fæddur þegar við hófum að kanna með gæslu eftir að fæðingarorlofi lyki og skrá hann hjá þeim dagforeldrum sem voru starfandi hér á Akureyri.

Tíminn leið, við foreldrarnir vorum í fæðingarorlofi og nutum heimaverunnar með nýjustu viðbótinni. Jólin og áramótin nálguðumst óðfluga og enn höfðum við hjónin ekki fengið pláss fyrir litla drenginn. Alls staðar var fullt og fyrirséð að hann kæmist hvergi að í bráð. Óvissan var óþægileg, henni fylgdi kvíði, óþreyja, og áhyggjur af afkomu heimilisins og endurkomu til starfa enda geta fæst heimili tekið á sig þá tekjuskerðingu að önnur fyrirvinnan sé úr leik.

Fyrir einskæra tilviljun fréttum við að nýtt dagforeldri væri að taka til starfa eftir áramót og tókst okkur að grafa upp hver það væri, og verða okkur úti um símanúmer. Ég hringdi og eftir stuttar samræður var drengurinn kominn með pláss. Þvílík lukka hjá okkur foreldrunum. Já, við vorum svo sannarlega heppin. En svo á ekki við um marga aðra. Hversu marga foreldra þekkjum við sem eru fastir heima, tekjulausir og að einhverju leyti félagslega einangraðir? Staðan sem við vorum í er ekki einstök, heldur er þetta kaldur veruleiki margra foreldra.

Það er eitt af markmiðum mínum í bæjarstjórn að taka þessi mál föstum tökum og sjá til þess að þessari óvissu verði eytt, þannig að fólk þurfi ekki að eyða fæðingarorlofinu í óvissu um afkomu sína.

Halldór Arason, fyrsta sæti á framboðslista Pírata á Akureyri 2018

Pistillinn birtist upphaflega í fréttablaðinu Norðurland 26. apríl 

Sambíó

UMMÆLI