Leitaði til lögreglu eftir að viðskiptavinur neitaði að borga fyrir fíkniefni

Föstudagskvöldið 13.maí síðastliðinn kom heldur undarlegt mál inn á borð lögreglunnar á Akureyri þegar fíkniefnasali setti sig í samband við þá.
Hann hafði þá verið að selja viðskiptavini 20 grömm af marijúana. Þegar svo kom að afhendingu og greiðslu fyrir efnin neitaði viðskiptavinurinn að borga. Hann hrakti fíkniefnasalann af heimili sínu með hótunum um barsmíðar, þar sem hann tók meðal annars upp hamar og hótaði honum.

Í kjölfar þessarar atburðarásar hafði fíkniefnasalinn samband við lögreglu og tjáði þeim að hann óttaðist um líf sitt og einnig hefði hann auðvitað ekki fengið greitt.
Lögreglan tók þá málin í sínar hendur og gerði húsleit hjá viðskiptavininum, þar sem hann fannst ásamt öðrum manni að drekka og reykja áðurnefnt maríjúana. Við húsleitina fannst hið umtalaða maríjúana og einnig ofskynjunarsveppir. Þá fundust til viðbótar kannabisplöntur, stutt komnar í ræktunarferli, og þeir félagar því einnig kærðir fyrir fíkniefnalagabrot í ofan álag við hótun um líkamsárás og fjársvik.

Fíkniefnasalinn sem var fórnarlambið í öllu þessu máli slapp þó ekki alveg fyrir horn. Hann er ákærður fyrir söluna á grasinu, sem hann verðlagði sjálfur á 75.000 krónur. Við nánari rannsókn á málum hans og húsleit komst lögreglan einnig yfir fé sem ákæruvaldið hefur rökstuddan grun um að sé hagnaður af sölu fíkniefna.

Þessir þrír menn eru því allir ákærðir fyrir einhvern hlut að máli og koma fyrir Héraðsdómi Norðurlands eystra um miðjan desember. Vísir greindi fyrst frá málinu.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó