Lionsklúbburinn Hængur harmar mistök á verðlaunagripum sem keppendur fengu á Hængsmótinu um helgina

Lionsklúbburinn Hængur harmar mistök á verðlaunagripum sem keppendur fengu á Hængsmótinu um helgina

Hængsmótið 2019 var haldið síðustu helgi í íþróttahöllinni á Akureyri en mótið er árlegt íþróttamót fyrir þroska- og hreyfihamlaða einstaklinga þar sem keppt er í ýmsum greinum, þ.á.m. boccia, borðtennis og lyftingum.

Lionsklúbburinn Hængur hefur nú gefið út formlega yfirlýsingu og afsökunarbeiðni vegna verðlaunagripa sem afhentir voru keppendum um helgina. Fyrir mistök var grafið á verðlaunapeninga og bikara Þroskaheftir en ekki Þroskahamlaðir. Boccia-þjálfari á Akureyri vakti athygli á þessu á facebook en Lionsklúbbsmenn brugðust fljótt við og báðust innilegrar afsökunar á þessu.

Verðlaunapeningarnir sem keppendur fengu um helgina.

Taka alla ábyrgð á þessu máli

Í yfirlýsingunni segja þeir harma mistökin mjög og benda á að í öllum öðrum þáttum mótsins, ss. mótaskrá, keppnisblöðum o.s.fv. hafi iðulega verið talað um Þroskahamlaða. Verðlaunagripirnir hafi verið einsdæmi um þetta orðalag og því hörmuleg mistök.

„Þau hörmulegu mistök áttu sér stað að okkur Hængsmönnum yfirsást að vitlaust hafi verið grafið á peninga og bikara þar sem átti að standa Þroskahamlaðir en stendur Þroskaheftir. Í öllum gögnum mótsins hvort sem um er að ræða mótaskrá, keppnisblöðum eða öðru sem frá okkur fór vegna mótsins, var ætíð sett fram Þroskahamlaðir. Því hörmum við þessi mistök sárlega.
Það er okkur mikið kappsmál að koma ætíð fram við keppendur okkar af virðingu og vinskap. Við höfum átt farsæl samskipti við keppendur og félög þeirra til 37. ára og vonumst til þess að eiga þau áfram. Verðlaunagripirnir sem um ræðir voru veittir á Hængsmótinu síðastliðna helgi og tökum við alla ábyrgð á þessu leiðinlega máli. 
Við biðjum keppendur okkar innilega afsökunar á þessum mistökum og munum við senda nýja verðlaunagripi til hlutaðeigandi,“
segir í tilkynningunni frá Lionsklúbbnum.


Sambíó

UMMÆLI

Sambíó