Lóa vann heimakeppnina í Biggest Loser – Missti 36,2% af heildarþyngd

Lóa var 113,7 kíló þegar keppnin hófst.

Ólafía Kristín Norðfjörð er Akureyringur sem keppti í þáttunum Biggest loser Ísland nýverið. Lóa, eins og hún er gjarnan kölluð, náði hreint út sagt ótrúlegum árangri og missti 41,2 kg í keppninni. Þegar keppnin hófst mældist Lóa 113,7 kíló og endaði í 72,5 kílóum þegar keppni lauk og hafði þannig misst 36,2 prósent af heildarþyngd sinni. Lóa datt út úr aðalkeppninni en bar sigur úr býtum í heimakeppninni. Heimakeppnin lýsir sér þannig að sá sem nær bestum árangri eftir að heim er komið og keppninni sjálfri er lokið sigrar. Úrslitakeppnin fór fram í Háskólabíói á fimmtudaginn þar sem kom í ljós að hún hafði sigrað heimakeppnina.

Lóa kynntist frábæru fólki í keppninni.

Kaffið heyrði í Lóu og fékk að forvitnast um ákvörðun hennar að taka þátt í keppninni og hvernig upplifunin var í heild sinni. Lóa segist ekki hafa verið vongóð um að vinna heimakeppnina þó að það hafi verið markmiðið en hún þurfti að gangast undir aðgerð eftir að keppninni lauk. Samt sem áður tókst henni að sigra heimakeppnina.
En af hverju kaus Lóa að skrá sig í keppnina í stað þess að reyna að létta sig á hefðbundinn máta?

,,Ætli ástæðan hafi ekki verið fyrst og fremst vegna þess að ég var ekki ánægð með sjálfa mig eins og ég leit út og leið alls ekki vel andlega né líkamlega. Svo ég sótti um á sínum tíma þegar ég sá auglýsingu á netinu að hægt væri að sækja um í þessa þætti með það að þetta væri kannski mín síðasta leið að ná líkamlegri og andlegri heilsu í lag. 

Lóa segist hafa verið orðin illa stödd bæði andlega og líkamlega fyrir keppnina.

Þannig er málið að ég hef glímt við aukakílóin síðan á unglingsárum, eða í ca. 13 ár en ekkert virtist virka fyrir mig. Ég fór minnir mig fyrst til einkaþjálfara þegar ég var 15 ára, hef svo farið á mörg líkamsræktar námskeið í gegnum árin og það síðasta sem ég gerði áður en ég fór í Biggest Loser var að stunda Crossfit í Crossfit Akureyri. En ekkert virtist virka svo mér liði betur með sjálfa mig.

Þegar ég skráði mig í Biggest Loser þá var ég ekkert að spá í því að ég væri að skrá mig í sjónvarpsþátt, sem er í sjálfu sér mjög skrítið þar sem þetta er jú sjónvarpsþáttur en ég skráði mig í keppnina með þann hug að þarna gæti ég lært eitthvað sem gæti kannski virkað fyrir mig.
Að fá fræðslu um mataræði var mér líka ofarlega í huga þar sem ég var að einhverju leiti farin að átta mig á því að ástæða þess að ég væri í yfirþyngd væri líklega að mestu leyti mataræðið mitt sem ég átti mjög erfitt með að ná tökum á og þarna gæti ég kannski lært hvernig ég gæti náð tökum á því.“

Lóa segir það erfiðasta við keppnina hafa verið að vera frá fjölskyldu sinni, en hún á mann og tvær stelpur sem voru heima á Akureyri meðan á keppninni stóð og hún saknaði gríðarlega í þessar 8 vikur sem hún dvaldi á Bifröst. Í dag eru þau búsett í Keflavík.
,,Ég saknaði þeirra ótrúlega mikið en þetta er ansi langur tími frá ástvinum sínum án þess að sjá eða heyra í þeim. Það var klárlega það erfiðasta við þetta,“ segir Lóa.

Lóa ásamt stelpunum sínum tveimur, sem hún saknaði gríðarlega meðan á keppninni stóð.

Lóa segist klárlega mæla með Biggest Loser fyrir fólk í yfirþyngd sem vill létta sig. Þar lærirðu mikið um heilsuna, andlegt og líkamlegt heilbrigði, hversu mikið mataræðið skiptir máli og þar fram eftir götum. Hún segir að það sé að sjálfsögðu hægt að læra það annarsstaðar líka en fyrir hana var Biggest Loser frábær leið til að læra alla þessa þætti.

Hún segir það ómetanlegt að hafa kynnst öllu þessu frábæra fólki sem kom að þáttunum, keppendurnir, þjálfararnir og allt liðið í heild sinni.
,,Þetta eru einstaklingar sem munu alltaf eiga stað í hjarta mínu og er ég ævinlega þakklát fyrir að hafa fengið það tækifæri að vinna með þeim í þann tíma sem við áttum saman á Bifröst og einnig eftir að tökum lauk“.

Vinir og vandamenn Lóu komu saman til þess að horfa á úrslitaþáttinn og misstu gjörsamlega andlitið yfir árangri hennar enda eftirtektarverður munur á henni eftir átakið. Hvernig fannst þér svo að sjá viðbrögðin frá aðstandendum þínum?

,,Það var bara dásamlegt, ég er eigilega bara búin að brosa út að eyrum frá því á lokakvöldinu.
Það er líka ótrúlegt hvað það gefur manni mikið boost að vilja standa sig og halda áfram að standa sig vel, og þrátt fyrir að keppnin sé búin þá vill maður áfram vera fyrirmynd annarra og sýna að þessu er ekki lokið, þetta er nýr lífsstíll sem á að vara alla ævi,“ segir Lóa að lokum.

Myndin er tekin fyrir keppnina.

Mynd tekin eftir keppnina.

Lóa lítur stórglæsilega út og líður mun betur líkamlega og andlega að eigin sögn.

 

Sambíó

UMMÆLI