Logi Einarsson gripinn við að leggja ólöglega á Akureyri

Mynd sem Jón Aðalsteinn birti á Facebook af Loga ganga aftur í bifreið sína.

Myndir af Loga Einarssyni, formanni Samfylkingarinnar, og bifreið hans lagt ólöglega á Akureyri um helgina hafa vakið töluverða athygli á samfélagsmiðlum. Bifreiðinni lagði hann á móti umferð í nokkrar mínútur meðan hann stökk inn í búð á þessari fjölförnu götu sem Vínbúðin stendur jafnframt við og því fylgir götunni töluverð umferð.
Jón Aðalsteinn Norðfjörð birtir myndir af þessu á Facebooksíðu sinni og segir þessa stöðvun bifreiðar Loga hafa valdið hættu:

„Hér er formaður Samfylkingarinnar að ná sér í smá vape á Akureyri. Hann er að koma út úr búðinni. Hann lagði bílnum, þessum bláa á myndunum, á móti umferð í nokkrar mínútur á meðan hann stökk inn í búðina. Við þessa sömu götu er ÁTVR og mjög gjarnan mikil umferð á þessum tíma á laugardegi. Myndirnar voru teknar í gær. Það náðist ekki myndband af því þegar hann fór af stað aftur en litlu mátti muna að slys hlytist af. Bílar akandi úr báðum áttum og gangandi vegfarandi á gangbraut. Eins og sést á myndunum er nóg af lausum stæðum hinum megin við götuna, við ráðhús bæjarins. Þessi maður er með tvær milljónir á mánuði fyrir það eitt að vinna að almannahag!“ segir í færslu Jóns.

Logi Már Einarsson er formaður Samfylkingarinnar.

Logi brást fljótur við og svaraði Jóni að hann ætti sér engar málsbætur:

„Sæll Jón Aðalsteinn, takk fyrir að sýna mér aðhald. Það er mikilvægt gagnvart fólki í stjórnmálum.
Ég á mér engar málsbætur, þarna er óheimilt að leggja bifreið. Ég mun leitast við að læra af þessu.

Bestu kveðjur, Logi.“

 

Sambíó

UMMÆLI