Prenthaus

Lýðfræðileg miðja Íslands

Lýðfræðileg miðja Íslands

Friðrik Örn Bjarnason, Katrín Hólm Hauksdóttir, Sævar Þór Halldórsson og Tryggvi Már Ingvarsson skrifa:

Þjóðskrá hefur ótalmörg spennandi lögformleg verkefni. Eitt af þeim er að halda úti staðfangaskrá. Staðfang er þýðing á enska hugtakinu „address“ og nær hugtakið yfir götuheiti og húsnúmer, sérheiti bygginga og landfræðilega staðsetningu, hvort sem um er að ræða heimili einstaklinga, aðsetur fyrirtækja eða staðsetning á t.d. fjarskiptamastri, lóð eða ferðamannastað. Staðfang er þannig einnig ein tegund örnefnis. Staðföng eru hnitsett í gagnagrunni Þjóðskrár.

Annað hlutverk Þjóðskrár er að halda úti skrá yfir alla einstaklinga búsetta á Íslandi. Heimilisfang þeirra er í raun staðfang í staðfangaskrá. Þetta gefur okkur hnitsett lögheimili sem hægt er að nota til þess að sjá lýðfræðilega þróun á myndrænni hátt og frá fleiri sjónarhornum en við höfum gert til þessa.

Áhugavert er að skoða hvernig þróun mannfjölda á Íslandi hefur verið undanfarin ár, hvar hin svokallaða lýðfræðilega miðja er. Lýðfræðileg miðja er meðaltalsstaðsetning íbúa Íslands miðað við búsetu. Við hjá Þjóðskrá höfum vikulega safnað þróun þessarar miðju allt frá árinu 2015 auk þess settum við inn á kort til glöggvunar eldra viðmið frá 2007.

Þessa dagana er lýðfræðileg miðja Íslands við botn Hvalfjarðar nánar tiltekið í Brynjudal við Djúpadalsborgir, Kjósarhreppi – en sjá má á kortinu að eldri staðsetningar eru allar norðar og austar. Þannig má segja að lýðfræðileg miðja Íslands hafi færst taktfast nær höfuðborgarsvæðinu síðastliðin 6 ár þar sem uppbygging og íbúafjölgun hefur verið hlutfallslega meiri en annarsstaðar á landinu. Ef horft er til ársins 2007, þar sem punkturinn er á toppinum á Hvalfelli, þá sést að sama þróun nær yfir lengri tíma því röð punktanna er næst sem línuleg. Kortið gefur því góða mynd af mannfjöldaþróun á Íslandi þar sem aukningin á suðvesturhorninu er meiri heldur en á öðrum landsvæðum.

Höfundar eru sérfræðingar hjá Þjóðskrá á Akureyri.

Sambíó

UMMÆLI