Menningarfélag Akureyrar hefur gert samning við veitingahúsið Majó um að taka við rekstri veitingastaðarins í Menningarhúsinu Hofi á nýju ári. Rekstraraðilar Majó eru bræðurnir Magnús Jón og Alexander Magnússynir, ásamt Ídu Irene Oddsdóttur og Aðalsteini Óla Magnússyni.
Majó hefur sérhæft sig í sushigerð og hefur getið sér gott orð fyrir hana á síðustu árum í Laxdalshúsi, elsta húsinu á Akureyri. Staðurinn er auk þess þekktur fyrir girnilega Pop-up viðburði í firðinum og víðar, gómsæta brottnámsbakka, aðlaðandi stemningu og góðan mat í Laxdalshúsi. Majó flytur nú starfsemi sína úr Laxdalshúsi í Hof.
Áhersla verður lögð á spennandi veitingar, með asískum áhrifum, þar sem sushi leikur stórt hlutverk. Fastagestir Majó, sem og aðrir, geta því haldið áfram að njóta í hádeginu og á kvöldin, í skammdeginu sem og yfir bjartasta tíma ársins.
„Við erum afar spennt að opna dyr Majó í Menningarhúsinu Hofi á nýju ári og bjóða gesti velkomna með pompi og prakt. Ný húsakynni gefa okkur skemmtileg tækifæri til áframhaldandi þróunar á þeirri þjónustu sem við veitum, svo sem veitingarekstri á ársgrundvelli, Pop-up viðburðum og áframhaldandi sushinámskeiðahaldi, svo ekki sé talað um móttöku fjölbreyttari hópa gesta sem kallar á ólíkar nálganir í matargerð og þjónustu“ segja aðstandendur Majó ehf.
„Ég fagna því að samningar hafi náðst við þessa flottu og reynsluríku aðila. Þetta er virkilega spennandi nýbreytni hér í Hofi og ég hlakka til samstarfsins. Um leið vil ég þakka fráfarandi rekstraraðilum H90 fyrir samstarfið síðustu ár og óska þeim velfarnaðar í þeim verkefnum sem við taka hjá þeim,“ segir Eva Hrund Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Menningarfélags Akureyrar.
Formleg opnun Majó verður auglýst í byrjun árs.


COMMENTS