Marína Ósk með nýja jólaplötu ásamt Stínu ÁgústsMarína Ósk og Stína Ágústs.

Marína Ósk með nýja jólaplötu ásamt Stínu Ágústs

Þann 29.nóvember lítur dagsins ljós glæný heimabökuð jólaplata á íslensku sem jazzsöngkonurnar Marína Ósk og Stína Ágústs senda frá sér, ásamt gítarleikaranum Mikael Mána Ásmundssyni. Platan hefur verið nefnd „Hjörtun okkar jóla“ og inniheldur 10 norræn jólalög frá Svíþjóð, Danmörku, Noregi, Finnlandi og Íslandi. Lögin hafa öll verið færð í skínandi fín jazzspariföt og skarta erlendu lögin íslenskum textum eftir þær Marínu og Stínu. 

Segja má að andi gömlu jazzplatnanna svífi yfir plötunni. Platan var tekin upp á haustlegum rigningardegi í september undir stjórn Þórðar Magnússonar og fóru upptökur fram á heimalagaða mátann; allir í sama herbergi og allir tóku upp samtímis.

Ilmur af gömlu jazzhefðinni í bland við nútímalegri tóna

Hugmyndin að verkefninu kviknaði haustið 2018. Ég fékk skilaboð frá Stínu á facebook um hvort við ættum ekki að sjóða saman í jólatónleika. Ég greip í Mikael sem sat við hliðina á mér og spurði „ertu með?“ og bókaði hann á staðnum. Við héldum tónleika í Stokkhólmi og í Reykjavík 2018 og fengum margar fyrirspurnir um hvort þetta efni væri útgefið. Okkur þykir afar vænt um þetta verkefni og ákváðum því að taka það upp!“ segir Marína Ósk. 
Tónlistin á plötunni er hlýleg og var lagt upp með að hún fengi heimalagaðan jólablæ. Útsetningarnar, sem voru að mestu í höndum Mikaels Mána, ilma af gömlu jazzhefðinni sem blandast skemmtilega við nútímalegri tóna. Textarnir eru áferðafallegir og hnyttnir á köflum, en Marína og Stína hafa báðar fengið tilnefningu til Íslensku tónlistarverðlaunanna fyrir jazzplötur á íslensku með textum eftir þær sjálfar og Mikael fyrir útsetningar. (Jazz á Íslensku, Stína Ágústs 2017, Beint heim, Marína & Mikael 2018). 

Indæl jólarómantík og gleymnir jólasveinar

Það kom upp sú hugmynd að hafa lögin á íslensku og við Marína hófumst strax handa við textasmíðar, enda báðar með mikinn áhuga á fallegum textum. Umfjöllunarefnin eru hinar ýmsu hliðar jólanna og aðventunnar; allt frá indælli jólarómantík til hinna gleymnu jólasveina til glitrandi jólafriðar og var mikið lagt í textagerðina.“ segir Stína. 

Auk þeirra Marínu, Stínu og Mikaels, leika þeir Þorgrímur Jónsson á kontrabassa og Matthías M.D. Hemstock á trommur. 
Þau Stína, Marína og Mikael halda í tónleikaferðalag í byrjun desember og halda tónleika í Osló 5.desember, Kaupmannahöfn 6.desember, Stokkhólmi 7.desember og enda í Reykjavík þar sem haldinn verður útgáfufögnuður í Norræna húsinu miðvikudagskvöldið 11.desember kl.20:00

Platan er komin á Spotify.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó