Tvær nýjar bækur úr hugarheimi Akureyringsins Söndru B. Clausen eru væntanlegar á næstunni. Bókin Galdra-Imba úr nýrri bókaseríu Söndru sem hún kallar Blóðbönd og Jól á Tenerife úr bókaseríunni Klúbburinn.
Bókin Galdra-Imba sem kemur út sem hljóð- og rafbók í næstu viku í gegnum Storytel verður níunda bók Söndru. Þar les Salka Sól inn bókina sem gerist á myrkri galdraöld Íslandssögunnar, nánar tiltekið 17. öldinni og fjallar um prestsdótturina Ingibjörgu Jónsdóttur.
„Sú sería er mér afar kær en hugmyndin kviknaði er ég var stödd í kommúnu á fallegri eyju við strendur Svíþjóðar síðasta sumar. Ég var beðin um að skrifa eitthvað svipað og áður nema sögusviðið Ísland og nær okkar tíma. Í þeirri kommúnu sem ég dvaldi í var ég með fjöldann allan af frjóum höfundum í kring sem gaf mér innblástur og ekki skemmdi sjóbað fyrir svefninn og þær löngu kvöldstundir sem við deildum innbyrðis og spáðum ýmsu tengdu listinni. Þá fór af stað handrit í huganum að þessari nýju seríu – Blóðböndum,“ segir Sandra.
„Þegar ég hafði valið mér Imbu og hennar sögu til að skrifa um áttaði ég mig svo á að hún er mín formóðir í föðurlegg og fóstri hennar skyldur beint í legg móður minnar. Þannig tengi ég enn frekar við titilinn Blóðbönd og ég trúi ekki öðru en að þessi saga eigi eftir að hreyfa við fólki; ég vil gera Imbu hærra undir höfði en gert var í þá dagana þar sem hún var talin göldrótt norn en var einungis kjarnakona síns tíma. Óþægileg, var sagt í hlaðvarpinu Hið Myrka Ísland en þar hef ég stutt mig við heimildir, sem og í bókum og á netinu. Það er því heilmikið ferðalag fram undan og ég vona að þið njótið með mér.“
Sandra hefur haldið sér að verki við ritstörfin en Blóðbönd er þriðja bókaserían hennar. Áður hefur hún gefið út sjö bóka seríuna Hjartablóð sem naut mikilla vinsælda. Hjartablóð eru sögulegar skáldsögur með erótísku ívafi.
„Það er ekki mikið um bækur í þeim flokki eftir íslenska höfunda, slíkar sögur heilla mig og því langaði mig að skapa frásagnaheim sem á sér sögulegan grundvöll en er jafnframt hreinn uppspuni.”
Auk þess gaf Sandra út bókina Klúbburinn í sumar í samvinnu við Sögur útgáfu. Klúbburinn er fyrsta bók Söndru sem gerist í nútímanum og sögusviðið er Siglufjörður.
„Þarna vildi ég hreint og beint athuga hvort ég ætti nokkuð í erfiðleikum með að skrifa handrit á okkar tíma eða hvort ég fengi ritstíflu. Þvert á móti skrifaði bókin sig næstum sjálf, sannkallaður ljúflestur með enn frekari áherslu á erótík og nánd.”
Í nóvember kemur út önnur bókin í Klúbbaseríunni sem ber heitið Jól á Tenerife. Það verður tíunda bók Söndru.
„Tilvalið er að grípa hana með sér um borð í flug á leið til Tenerife yfir hátíðina eða fletta henni undir teppi heima við jólatréð,“ segir Sandra en varar þó við því að ef fólk er ekki fyrir erótísk skrif gæti verið gott að sleppa því að lesa þar sem bækurnar innihaldi óhindraðar lýsingar af kynlífi í hverjum kafla.


COMMENTS