Milljónir hlusta á tónlist Glazer: „Er að lifa drauminn hans pabba“

Milljónir hlusta á tónlist Glazer: „Er að lifa drauminn hans pabba“

Norðlenski tónlistamaðurinn Gunnlaugur Orri Sumarliðason, betur þekktur sem „Glazer“ hefur slegið í gegn út um allan heim með töktum sínum en hann hefur í gegnum internetið komið sér á framfæri í bandarísku rapp senunni og unnið með risa nöfnum á borð við Lil Baby, NLE Choppa og Lil Tjay. Kaffið heyrði í Glazer og spurði hann út í lífið og veginn.

Glazer er einungis tvítugur en tónlist hefur einkennt líf hans frá því hann var lítill, pabbi hans er Sumarliði Helgason einn af forsprökkum Hvanndalsbræðra.

„Það hefur verið mikil tónlist í kring um mig alveg síðan ég fæddist, Pabbi hefur gert það gott með Hvanndalsbræðrum og fleiri böndum. Hann hefur sýnt mér allskonar tónlist frá því að ég var krakki, t.d sofnaði ég við Rammstein á þeim tíma sem ég svaf í rimlarúmi, það var hugmyndin hans pabba að vögguvísu. Ég stofnaði líka hljómsveit á sínum tíma með félögum mínum þegar ég var 10 ára þar sem ég spilaði á bassa sem pabbi kenndi mér á.”

Lagið Ramen&OJ gerði Gunnlaugur með Lil Baby og Joyner Lucas, það er nú þegar komið með yfir 60 milljónir hlustanir á Spotify og fór upp í 67.sæti Billboard listans, einnig var lagið efst á Rap Caviar sem er einn vinsælasti playlistinn á Spotify. Hann segir tilfinninguna hafa verið mjög góða sérstaklega þar sem Lil Baby sé búinn að vera hans uppáhalds rappari undanfarin ár, hinsvegar segist hann ekki ætla að festast í augnablikinu heldur einbeita sér að því að halda áfram og komast enn lengra.

Hvernig kemur það til að ungur strákur frá Akureyri kemur sér á framfæri í Bandrarísku rapp senunni?

„Allir góðir taktar sem ég geri set ég inná YouTube og Beatstars, þar sem hver sem er getur fundið þá. Þegar stærri aðilar fóru að finna taktana mína fór ég að ná tengslum við stór “Record Label” eins og Warner og Sony, ég sendi núna beat þangað en hleð ennþá inná YouTube og Beatstars, er með um það bil 100 þúsund fylgjendur á þeim síðum samanlagt. Um daginn fékk ég t.d “DM” á Instagram frá Lil Tjay þar sem hann sagðist vilja nota eitt af “beatunum” sem var inná YouTube’inu mínu, sem endaði svo á plötunni hans.”

Foreldrar Gunnlaugs styðja hann ótrauðan áfram í listinni en hann hefur núna lifað á því að búa til beats/takta í 3 ár. Hann segir fólk ekki átta sig á því hvað hann leggur mikla vinnu á sig í studioinu.

„Þegar ég er heima hjá mér er ég alltaf að gera beats, ég og félagi minn Stefán (stebbz) erum líka með studio sem við gerum beats í hvenær sem hentar. Þetta er í rauninni bara 9-5 vinna nema bara frá 9 að kvöldi til 5 um morguninn, það er ekkert að því samt því mér finnst þetta alltaf gaman. Það fylgir þessu líka ótrúlega mikil tölvupósta og pappírs/samninga vinna, en er með lögfræðing sem hjálpar við það, sem er mikilvægt. Pabbi nefnir það oft að ég sé að lifa draumnum hans, semsagt að vinna við að skapa tónlist án þess að þurfa vera einhver “persónuleiki”.

Hafa frægir Íslenskir tónlistarmenn tekið eftir þér? Langar þér að vinna með einhverjum sérstökum hér á landi?

„Já ég er í sambandi við alveg frekar marga rappara hér á landi. Var í studíoinu fyrir nokkrum dögum með Yung Nigo Drippin, Izleif og Stebba (Stebbz) og við vorum að vinna í einhverjum lögum. Floni senti mér líka skilaboð um daginn og við ætlum að reyna gera eitthvað, hann gerir góða tónlist og ég væri til í að búa til eitthvað með honum. Annars er alltaf mesti fókusinn á Bandarískum markaði hjá mér. Issi er líka nýr rappari hér á landi sem ég held að muni verða stór. Shoutout Izleifur og Tommy lika, klikkaðir producerar frá ÍSL.”

„Trap” guðinn Future hefur í gegnum tíðina verið í miklu uppáhaldi hjá Glazer en hann sótti mikinn innblástur í taktana hans í byrjun ferilsins, pródúserar á borð við 808 Mafia, Metro Boomin og Zaytoven heilluðu hann mest. Í dag hlustar hann hinsvegar á tónlist úr öllum áttum og tekur innblástur frá öllu sem honum finnst hljóma vel, upp á síðkastið hefur hann mikið verið að hlusta á Bladee, Moby, Bon Iver og Radiohead.[IS9] 

Hvernig gekk þér í skóla? Finnst þér skólakerfið henta fólki sem vill fara út fyrir normið og gera tónlist eða aðra list að atvinnu sinni?

„Mér gekk bara vel í skólanum, en hafði engan metnað fyrir því sem ég var að læra. Skólakerfið eins og það er í dag mun líklega ekki hjálpa þér að fara út fyrir normið, þarft að mínu mati að gera það á eigin forsendum. Hinvsegar er ég opinn fyrir því að fara í einhverskonar tónlistarnám einn daginn og læra eitthvað sem ég hef gaman að. Framhaldsskóli kenndi mér alveg eitthvað sem mun henta mér en þetta hefði mátt vera svona tvær annir í heildina.”

Ertu með einhver ráð fyrir ungt tónlistarfólk sem vill feta í þín fótspor?

„Það er ekkert blueprint, eina sem ég hef lært er að “consistency” og að leggja mikla vinnu í það sem þú vilt gera skiptir öllu máli. Ég hleð inn beat-i annanhvorn dag og hef ekki misst af degi í um það bil 3 ár, sama hvað. Sendi líka út á label og artista eins oft og ég get, að byggja upp eins mörg góð tengsl og þú getur í tónlistarbransanum er líka mjög mikilvægt.”

Ertu spenntur fyrir nýju Kanye West plötunni(DONDA)?

„Já bruh horfði á bæði þessi Live Premiere á apple music og þetta hljómar vel, bara spurning hvenær hann gefur þetta út.”

Hvað er framundan hjá Glazer?

„Gera beats sinnum endalaust, senda þau út og vona það besta. Get ekki sagt hvort ég sé á einhverjum plötum sem koma bráðlega þar sem ég frétti það oftast bara nokkrum vikum fyrir. En ég á nokkur lög í stashinu sem hafa ekki ennþá komið út.”

„Shoutout á Stebbz (Stefán Vilhelmsson), BeatsbyFrost (Sindri Sævars), Narrow (Arnar Freyr)  og ProdbyStorm (Þorsteinn Sævars)  líka. Þeir eru up & coming frá Akureyri líka og eru að fara sömu leið og ég.”

UMMÆLI