beint flug til Færeyja

Minnkum streitu á börn og foreldra

Þuríður Sólveig Árnadóttir skrifar:

Mikið hefur verið rætt og skrifað um aukna streitu hjá börnum sem heldur áfram fram á fullorðinsár. En hvernig byrjar þetta allt? Hvernig tökumst við á við rót vandans?

Hugmynd mín er sú að setja tómstundir barna, 10 ára og yngri, alfarið inn á skólasvæði þeirra. Þá er ég að hugsa um íþróttir, tónlist, myndlist, sviðslistir og fleira. Ekki kemst allt fyrir inni á öllum skólasvæðunum því þau eru misjafnlega uppbyggð en margt kemst þar fyrir með góðu skipulagi og nýrri sýn.

Börnin gætu þá með góðu móti prufað flestar tómstundir og fundið þannig út hvað það er sem hentar þeim best og vekur mestan áhuga. Lykilatriði er að engin keppni eða slíkar uppákomur yrðu tengdar þessum tímum, því samkeppni milli barnanna er meðal þess sem veldur streitu. Það er mikilvægt að ástundunin byggist á frjálsum leik og tjáningu því of mikið skipulag og markmiðasetning getur einnig valdið streitu.

Þetta þarf að vera fjölskyldum að kostnaðarlausu og börnin þurfa að geta valið fjölbreyttar greinar og getað skipt um skoðun. Hvað ætli margir foreldrar hafi greitt tómstundagjöld sem ekki voru nýtt til fulls því áhuginn var löngu farinn? Eða börn hafi ekki getað stundað tómstundir því ekki hefur verið til peningur upp í mismun á tómstundagjaldinu og styrknum frá sveitarfélaginu. Á síðasta ári nýtti fjórðungur barna ekki tómstundastyrkinn og þannig hefur það verið áður. Við því þarf að bregðast.

Rannsóknir sýna að regluleg hreyfing stuðlar að betra heilbrigði og dregur úr streitu. Börn ættu því öll að stunda reglulega hreyfingu og þá þurfa þau að finna hreyfingu sem veitir þeim gleði. Einnig hafa rannsóknir sýnt að æskilegt er að hreyfing barna sé sem fjölbreyttust. Eins og staðan er í dag lenda mörg börn í ofálagi ef þau ætla að stunda fleiri en eina grein vegna mikils tíma sem fer í hverja grein.

En víkjum aftur að byrjuninni; streita foreldra og barna. Hver kannast ekki við að vera eins og þeytispjald um bæinn seinnipart dags! Væri ekki gott að geta frekar komið heim upp úr klukkan 16 og tekið á móti barninu sínu sem þá er búið að stunda sínar tómstundir. Allir verða slakari og þá getur fjölskyldan gert eitthvað skemmtilegt saman og jafnvel stundað heimalestur, farið í sund, á skíði o.s.fv. Svo ekki sé nú talað um sparnað í eldsneyti, sliti á bílum og götum og þar með minni umhverfismengun!

Að lokum er vert að líta á tölur frá Virk starfsendurhæfingu um fjölgun einstaklinga með langvarandi veikindi og kulnun í starfi. Getur verið að við séum að leggja of mikið á okkur sem foreldrar við að passa inn og passa að börnin okkar missi ekki af neinu? Erum við að setja of mikla pressu á börn og foreldra? Eigum við ekki að ígrunda stöðu samfélagsins í heild fyrir barnafjölskyldur og draga úr álagi? Fá svo bæði ánægðari og hraustari börn og foreldra.

Þuríður Sólveig Árnadóttir skipar 5. sæti lista VG á Akureyri

Sambíó

UMMÆLI