The Cheap Cuts er ný rokkhljómsveit frá Akureyri sem gefur út sitt fyrsta lag í dag. Lagið heitir Words og er fyrsta lagið af komandi plötu hljómsveitarinnar.
Þeir Finnur Salvar Geirsson og Elmar Atli Arinbjarnarson skipa hljómsveitina The Cheap Cuts. Þeir eru báðir Akureyringar en þeir kynntust í hljóðtækninámi í Stúdíó Sýrland í Reykjavík.
„Á meðan náminu stóð vorum við byrjaðir að leika okkur af því að semja og búa til tónlist saman. Eftir námið fluttum við báðir aftur norður og ekki leið á löngu þar til okkur leiddist, svo upp úr því kom hugmyndin um að stofna hljómsveit,“ segir Finnur í samtali við Kaffið.
Finnur segir að lagið Words fjalli um það þegar að erfitt sé að finna orð til þess að lýsa flóknum tilfinningum.
Finnur og Elmar koma úr töluvert ólíkum áttum tónlistarlega séð en fundu þau samleið í rokkinu. Finnur hefur mestmegnis samið raf- og hiphop tónlist á sínum ferli.
„Ég samdi bara fyrir mig til að æfa mig og dreymdi um að verða pródúser eins og James Blake, einhver sem er með puttann í allskyns tónlistarstefnum. Félagi minn Pétur Már, Saint Pete, var nægilega kurteis til að gefa töktunun mínum gaum og ég á góðar minningar af því að geta deilt listinni minni með einhverjum öðrum sem stefndi langt í tónlist, það var mjög spennandi. Ég fór þó að lokum í aðra átt, tónlistarlega, og hæfileikar Péturs sem rappari skutu honum til reynslumeiri pródusenta, guð sé lof því sjá kallinn í dag.“
Elmar byrjaði að spila bílskúrsrokk á unglingastigi grunnskólans og hefur verið inn og út úr ólíkum hljómsveitum í gegnum tíðina. Hann var til að mynda gítarleikari hljómsveitarinnar 7.9.13 og hefur spilað á gítar í um 10 ár.
Finnur segir að eftir að hann kynntist Elmari þá hafi áhugi hans á rokkinu komið til baka. „Ég hlustaði á rokk sem polli en raftónlist og hip hop hafði heltekið playlista mína í mörg ár. Svo þegar við ákváðum að stofna hljómasveit lá augum uppi að gera hágæða rokk.“
„Stefnan var í fyrstu að búa til svona indie-popp-rokk í anda The Strokes en fundum síðar fastari hillu í rokkinu og höfum haldið okkur þar,“ segir Elmar Atli.
Það er nóg framundan hjá The Cheap Cuts en þeir félagar stefna á að gefa út annað lag næstkomandi miðvikudag, 29. október og svo kemur þeirra fyrsta plata út í heild eftir viku, föstudaginn 31. október.
Hlustaðu á lagið Words í spilaranum hér að neðan:


COMMENTS