NTC

Nýtt aðstöðuhús Nökkva vígtMynd 2: Nýtt aðstöðuhús og umhverfi þess á vígslunni í gær. Mynd: María H. Tryggvadóttir/akureyri.is

Nýtt aðstöðuhús Nökkva vígt

Ný og glæsileg aðstaða fyrir siglingar og sjósport á Akureyri var vígð við hátíðlega athöfn í blíðskaparveðri í gær. Framkvæmdum á vegum Akureyrarbæjar er að langmestu lokið við aðstöðuhús og útisvæði fyrir Siglingaklúbbinn Nökkva. Aðstaðan er komin í notkun og lofar góðu. Framkvæmdir gengu mjög vel og samkvæmt áætlun. Þetta kemur fram í umfjöllun Akureyrarbæjar um málið.

Aðstaðan var afhent formlega í gær um leið og skrifað var undir nýjan rekstrarsamning milli Akureyrarbæjar og Nökkva. Samkvæmt samningnum skal Nökkvi sjá um rekstur og umsjón félagssvæðisins, þ.m.t. nýtt aðstöðumannvirki, ásamt íþróttatengdri starfsemi. Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri og Eva Hrund Einarsdóttir, formaður frístundaráðs, fluttu ávörp við þetta tilefni og lýstu báðar yfir mikilli ánægju með mannvirkið sem gjörbreytir möguleikum siglingafólks á svæðinu. Verktökum og öllum sem að framkvæmdinni hafa komið var sömuleiðis þakkað kærlega fyrir góða vinnu.

Telur þetta vera bestu siglingaraðstöðu landsins

Húsið eru rúmir 400 fermetrar að gólffleti. Stærstur hluti þess er bátaskýli með góðri aðstöðu til viðhalds og endurbóta á bátum. Í húsinu eru einnig fyrsta flokks búningsklefar með sturtuaðstöðu og þurrkherbergi fyrir blautbúninga. Á efri hæð er félagsaðstaða, þaðan sem hægt er að ganga út á útsýnissvalir sem tengjast með stigum til tveggja átta.

„Við erum í skýjunum yfir nýja húsinu sem er algjör bylting á aðstöðu félagsins í landi og færir okkur jafnfætis því sem best gerist á Íslandi. Þegar þetta kemur saman með Pollinum myndi ég telja að Akureyri bjóði upp á bestu siglingaaðstöðu landsins,“ segir Tryggvi Jóhann Heimisson, formaður Nökkva.

Tryggvi Jóhann Heimisson formaður Nökkva og Ásthildur
Sturludóttir bæjarstjóri undirrita nýjan rekstrarsamning. Mynd: María H. Tryggvadóttir/akureyri.is
Sambíó

UMMÆLI