Prenthaus

Oddvitar í nærmynd: Eiríkur Björn Björgvinsson

Oddvitar í nærmynd: Eiríkur Björn Björgvinsson

Alþingiskosningar verða haldnar 25. september næstkomandi. Sem hluti af Kosningakaffinu heyrði Kaffið.is í oddvitum þeirra níu flokka sem bjóða sig fram í Norðausturkjördæmi og spurði út í komandi kosningar. Spurt var meðal annars um stefnu flokksins, áherslur í komandi kosningum og málefni Norðausturkjördæmis.

Markmið Kosningakaffisins er að auðvelda kjósendum að fræðast um flokkana, áherslur þeirra og stefnu, og kynnast oddvitum kjördæmisins.

Annar viðmælandinn er Eiríkur Björn Björgvinsson, oddviti Viðreisnar.


Hver eru ykkar helstu stefnumál fyrir komandi kosningar?

Viðreisn er frjálslyndur og alþjóðlega sinnaður flokkur. Við viljum réttlát samfélag sem byggir á jafnrétti, efnahagslegu jafnvægi og alþjóðlegri samvinnu. Samfélag þar sem fólk, heimili, fyrirtæki og byggðir landsins njóta jafnræðis.

Við viljum betri lífskjör og betra rekstrarumhverfi. Viðreisn vill binda gengi krónunnar við evru með samningi við Seðlabanka Evrópu sem fyrsta skref að upptöku evru. Þannig mun draga verulega úr verðbólgu, erfiðum gengissveiflum og vextir haldast lágir. Kostnaður heimila og fyrirtækja lækkar. Stöðuleiki eykst og fjárhagslegar skuldbindingar verða skýrari.

Við viljum sanngjarnar reglur í sjávarútvegi. Sjávarauðlindin er þjóðareign og á að vera það í orði sem á borði. Viðreisn vill að réttur til veiði verði með tímabundnum leigusamningum og að hluti kvótans verði boðinn upp á markaði á hverju ári.

Við viljum þjónustuvætt heilbrigðiskerfi sem er forsenda velferðar í íslensku samfélagi. Heilbrigðisþjónusta á að standa öllum til boða óháð efnahag og þjónusta við fólk á að vera leiðarstefið, fremur en rekstrarform þeirra sem þjónustuna veita.

Það á að borga sig að vera umhverfisvænn. Stærstu áskoranir samtímans eru vegna alvarlegrar stöðu í loftslags- og umhverfismálum. Ísland hefur getu til að vera leiðandi í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Viðreisn vill hvetjandi grænt kerfi þannig að það borgi sig að vera umhverfisvænn og að þau borgi sem menga. Við verðum að taka stór skref strax.

Við viljum fjölbreyttara atvinnulíf um allt land. Markviss efnahagsstjórn og aukið viðskiptafrelsi er í þágu allra. Stöðugur gjaldmiðill og virk þátttaka í alþjóðlegu viðskiptalífi eru grunnforsendur fyrir sterkari stöðu heimilanna, efnahagslegum framförum, aukinni framleiðni í atvinnulífinu og varanlegri aukningu kaupmáttar.

Við viljum að almannahagsmunir séu settir ofar sérhagsmunum.

Segjum sem svo að flokkurinn þinn fengi meirihluta atkvæða og gæti einn

myndað ríkisstjórn. Hvert yrði fyrsta mál á dagskrá?

Það er mjög ólíklegt að einn flokkur fá meirihluta atkvæða og geti einn myndað ríkistjórn og ég er ekki viss um að það sé gott fyrir lýðræðið. Við munum setja okkar helstu stefnumál, sem hafa hér að ofan verið nefnd, á oddinn í stjórnarmyndunarviðræðum og þar eru aðgerðir til að skapa efnahagslegan stöðuleika og umhverfismál grunnurinn að öllum öðrum þáttum.

Hvaða málefni eru mikilvæg fyrir Norðausturkjördæmi?

Öll mál sem Viðreisn berst fyrir er mikilvæg fyrir Norðausturkjördæmi sem og landið allt. Okkar helstu stefnumál sem að framan eru nefnd eru gríðarlega mikilvæg fyrir kjördæmið. Þar að auki eru samgöngu-, landbúnaðar-, raforku- og netöryggismál málaflokkar sem mikilvægt er að taka á strax. Það eru sóknarfæri í kjördæminu í eflingu sveitarstjórnarstigsins og málefnum norðurslóða. Jafnréttismál, jöfnun þjónustu milli landshluta, mennta- og menningarmál eru málaflokkar sem við í Viðreisn höfum og munum alltaf halda á lofti í kjördæminu.

Hvaða aðgerðir telur þú mikilvægastar til að takast á við loftslagsvandann?

Stærstu áskoranir samtímans eru á sviði umhverfismála. Ísland á að vera í fremstu röð í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og því neyðarástandi sem vofir yfir heimsbyggðinni. Við verðum að taka stór skref strax og koma á hvötum þannig að þeir borgi sem menga. Sjálfbær og ábyrg umgengni við náttúruauðlindir, þar sem náttúruvernd helst í hendur við nýtingu, er lykillinn að grænni framtíð. Öll mál eru umhverfismál. Viðreisn setur loftslagsáherslur í forgrunni allrar ákvarðanatöku. Við viljum skilvirkt og sjálfbært hringrásarhagkerfi. Við viljum sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda. Við stöndum fyrir vernd og endurheimt vistkerfa. Viðreisn setur náttúruvernd í öndvegi.

Hvað finnst þér um aðgerðir ríkisstjórnarinnar í baráttunni við Covid?

Við höfum stutt flesta aðgerðir ríkistjórnarinnar í baráttunni við Covid og teljum að samstaða um aðgerðir og að hlustað sé á sérfræðinga vera lykilatriðið í baráttunni. Stefnuleysi ríkisstjórnarinnar síðustu daga og vikur og vandræðagangurinn við að koma á varanlegum aðgerðum til lengri tíma hefur samt dregið úr trúverðugleika hennar.

Hvernig fannst þér tekið á Covid á landsbyggðinni?

Almennt vel við erfiðar aðstæður og án nokkurs undirbúnings enda verið nokkuð góð samstaða um aðgerðir. Það er samt gríðarlega öflugu og faglegu starfi heilbrigðisstétta, starfsfólki fræðslumála, sjúkraflutninga, björgunarsveita og Rauða krossins að þakka að samfélagið hefur getað gengið í þessum heimsfaraldri.

Af hverju ættu Norðlendingar að kjósa flokkinn?

Vegna þess að Viðreisn er flokkur sem lætur sér annt um fólk á landsbyggðunum. Við tökum stöðu með almannahagsmunum umfram sérhagsmuni. Vegna þess að Viðreisn er flokkur sem berst fyrir frelsi, réttlæti og jöfnuði fyrir fólk á öllu landinu ekki síst á landsbyggðunum. Við erum með öflugt fólk á framboðslistanum sem þekkir landshlutann vel og hefur mikla reynslu og þekkingu af atvinnulífi og stjórnsýslu svæðisins als.

Sjá einnig:

Oddvitar í nærmynd: Ingibjörg Isaksen


Kaffið.is fylgist með Alþingiskosningunum í haust með áherslu á Norðausturkjördæmi. Finna má fleiri greinar og annað gagnlegt efni tengt kosningunum með því að smella hér.

UMMÆLI

Sambíó