Múlaberg

Öll sýni neikvæð eftir að smit kom upp á legudeild SAk

Öll sýni neikvæð eftir að smit kom upp á legudeild SAk

Tuttugu sjúklingar og sjö starfsmenn eru í sóttkví eftir að smit kom upp á legudeild Sjúkrahússins á Akureyri í gær. Allur hópurinn var skimaður í gær en allir reyndust neikvæðir. Þetta kemur fram á vef fréttastofu RÚV.

Hildigunnur Svavarsdóttir, forstjóri Sjúkrahússins á Akureyri segir í samtali við RÚV að deildinni hafi verið lokað um leið og smitið kom upp. „Við þetta fara ákveðin viðbrögð í gang sem við erum orðin þjálfuð í að vinna með. Það felst í því að afmarka deildina og loka henni. Fara í okkar eigin smitrakningu og koma því fólki í sóttkví sem var í nánustu snertingu við einstaklinginn. Svo búum við svo vel að geta greint sýni hér fljótt og vel svo við nýttum okkur þær aðstæður og fórum strax af stað með það í gær.“  

Þrátt fyrir að smitið hafi ekki dreift sér segir Hildigunnur að sóttkví hafi alltaf töluverð áhrif á starfsemina. „Þetta hefur klárlega áhrif á deildina sem slíka en við þurfum bara að halda okkar starfsemi áfram eins og við getum. Helsta vinnan er í kringum það skipulag og fyrirkomulag en við þurfum bara að halda áfram,“ segir Hildigunnur að lokum í samtali við RÚV.

UMMÆLI

Sambíó