Covid-19: Öllum takmörkunum aflétt á miðnætti

Covid-19: Öllum takmörkunum aflétt á miðnætti

Frá og með miðnætti í kvöld, 26. júní, falla allar takmarkanir vegna kórónuveirunnar niður innanlands. Í þessu felst meðal annars fullt afnám grímuskyldu, nándarreglu og fjöldatakmarkana. Á landamærunum eru hins vegar enn skimanir og sóttvarnaráðstafanir í gildi. Þann 1. júlí taka gildi breyttar reglur varðandi sýnatökur á landamærum.

 „Í raun erum við að endurheimta á ný það samfélag sem okkur er eðlilegt að búa í og sem við höfum þráð, allt frá því að heimildir sóttvarnalaga til að takmarka samkomur voru virkjaðar vegna heimsfaraldurs fyrir rúmu ári, þann 16. mars 2020″ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.

Meira en vika er síðan síðasta smit af kórónuveirunni greindist innanlands og um 87% á bólusetningaraldri hafa fengið að minnsta kosti eina sprautu af bóluefni.

„Áætlanir okkar um framgang bólusetningarinnar hafa gengið eftir að fullu,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og þakkaði öllum fyrir að ráðast í verkefnið með stjórnvöldum.

Heilbrigðisráðuneytið gaf það út í apríl að í síðari hluta júnímánaðar yrði öllum takmörkunum innanlands aflétt, enda yrði hlutfall bólusettra að minnsta kosti komið upp í 75%. Þetta hefur nú gengið eftir.

Frekari upplýsingar má sjá á vef Stjórnarráðsins með því að smella hér.

UMMÆLI