Færeyjar 2024

PCC Kísilverið á Bakka tengt við flutningskerfi Landsnets

Frá vinstri: Renato Silvestre, rafmagnsverkfræðingur; Sigmundur Jónsson, rafveitustjóri og Jóhann Helgason, framkvæmdastjóri tæknisviðs.

Stórt skref var stigið sl. föstudag í undirbúningi vegna gangsetningar kísilvers PCC á Bakka, norðan við Húsavík, þegar verksmiðjan var tengd við flutningskerfi Landsnets.
Sigmundur Jónsson rafveitustjóri og Jóhann Helgason, framkvæmdastjóri tæknisviðs, leiddu verkið ásamt Renato Silvestre með dyggri aðstoð annarra starfsmanna. Verksmiðjan er því tilbúin að taka við orku frá Þeistareykjavirkjun þegar framleiðsla hefst.

Verksmiðjan tekin í gagnið um mánaðamótin
Framkvæmdir ganga ágætlega og prófanir á búnaði ganga vel, þótt enn sé nokkuð í land að gangsetning fyrri ofnsins geti hafist, kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu. Framkvæmdir við verksmiðjuna hófust árið 2015 og stefnan var alltaf tekin á að ljúka framkvæmdum á árinu 2018. Snjókoma og kuldi hafa haft áhrif að undanförnu en ekki meira en svo að reiknað er með því að setja verksmiðjuna í gang um næstu mánaðamót.

Allt starfsfólk hefur verið ráðið
Báðir ofnar eru nánast tilbúnir og mötunarkerfi fyrir hráefni er einnig að verða tilbúið til notkunar. Vinna við tækjasamstæður til að mala og pakka kíslinum er komin styst á veg en henni ætti að ljúka á réttum tíma. Öflugur hópur vinnur þessa dagana við prófanir á tölvubúnaði og öðrum kerfum verksmiðjunnar. Allt hráefni er komið á staðinn og allt starfsfólk hefur verið ráðið.

 

UMMÆLI