beint flug til Færeyja

Ráðinn í hlutverk hjá Leikfélagi Akureyrar í mars – ,,Ég ætlaði mér alltaf að snúa aftur til Akureyrar, það er vel hægt að vera atvinnuleikari hér“

Jóhann Axel Ingólfsson.

Jóhann Axel Ingólfsson er ungur og efnilegur leikari á Akureyri og er að taka sín fyrstu skref sem atvinnuleikari í fullu starfi. Hans fyrsta verkefni er sýningin; Sjeikspír eins og hann leggur sig, sem Leikfélag Akureyrar setur upp í mars næstkomandi. Jóhann Axel er menntaður leikari en hann nam leiklist í New York og er núna snúinn aftur í norðrið. Jóhann talar um námið og dvölina í New York, spennandi verkefnin framundan og hvernig það er í raun að vera ungur leikari á Akureyri.

Jóhann flutti til New York eftir útskrift úr MA, þar sem hann lærði leiklist í Stella Adler Studio of Acting. Hann segir námið hafa verið mjög gott en húsnæðismálin á meðan því stóð voru ekki eins frábær.

Óþægilega mikið af kakkalökkum
Þegar Jóhann flutti út fyrst þá bjó hann með kærustunni sinni, Katrínu Mist Haraldsdóttur, en hún var þá að ljúka sínu þriggja ára leiklistarnámi.
,,Fyrsta árið sem ég flyt út býr Katrín þar og er búin að vera í tvö ár úti. Þegar ég kem út gat ég gist hjá henni og við fengum okkur svo íbúð saman. Þetta var mjög fín íbúð í Queens-hverfinu en það var reyndar svona óþægilega mikið af kakkalökkum og þetta var í fyrsta skiptið sem ég var eitthvað innan um kakkalakka almennt,“ segir Jóhann.

Þegar Katrín lauk námi þurfti Jóhann Axel að finna sér nýjan meðleigjanda og endaði með herbergisfélaga að nafni Claus. ,,Það líður ekki sá dagur sem ég sakna ekki Claus,“ segir Jóhann kíminn en sambúðin var mjög skrítin að hans sögn. ,,Þá tók ég reyndar kakkalakkana í sátt því þeir voru bara ekki svo slæmir eftir að Claus flutti inn.“

Jóhann Axel hefur verið á sviðinu meirihluta ævi sinnar og ætlar sér að vera þar áfram.

Á götunni í New York síðasta mánuðinn
Ekki skánaði það á öðru ári en þá mætti Jóhann íbúðarlaus til New York og skellti sér á Craigslist, sem er eins konar bandarískt Bland.is. Þar rakst hann á herbergi í Harlem-hverfinu þar sem hann endaði á að leigja með lesbísku pari og klæðskiptingi. Parið átti svo fimm litla hunda og einn kött þannig að það var nokkuð þétt setið í íbúðinni. Það gekk á ýmsu þar, sér í lagi því sambýlingar hans voru allir í frekar harðri neyslu og hundarnir mjög grimmir að sögn Jóhanns og einn þeirra hreinlega beit fólk.
Hann lýsir því að parið hafi verið mjög misjafnt í skapinu og það hafi komið honum alveg í opna skjöldu þegar einn daginn hentu þær fjórða meðleigjandanum út á götu og hann sást aldrei meir.
,,Þær voru mjög skiptar í skapi, einn daginn voru þær voða yndislegar og annan alveg brjálaðar. Svo endaði þetta bara þannig að ég fékk skilaboð einn daginn þegar ég var í skólanum að allt dótið mitt væri á götunni og ég fengi ekkert að koma aftur. Ég dreif mig strax úr skólanum og þarna var bara allt dótið mitt á gangstéttinni eins og það lagði sig, Macbook tölvan mín við hliðina á brunahananum og svona. Þannig að ég var heimilislaus þarna síðasta mánuðinn og gisti bara á sófum hjá bekkjarfélögum mínum til skiptis áður en ég hélt heim til Íslands um sumarið,“ segir Jóhann Axel um endann á skrautlegri sambúð.
Jóhann lýsir því svo að þriðja og síðasta árið hans úti hafi hann verið í frábæru húsnæði og átti yndislegt ár.

Leit bara á þetta sem hálfgerða sjómennsku
Katrín Mist og Jóhann Axel eru trúlofuð og fagna fljótlega tíu árum saman. Af þessum tíu árum hafa þau verið tæp fimm ár í sundur þar sem Katrín byrjaði sitt leiklistarnám í New York tveimur árum á undan Jóhanni.
,,Það hljómar ekkert vel að segja að við vorum 5 ár í sundur. Ég leit alltaf bara á þetta eins og sjómennsku, af því að ég var kannski þrjá mánuði í burtu og svo kom ég heim um jólin og á sumrin og svo var hún dugleg að koma út þannig að þetta voru aldrei meira en þrír mánuðir sem við sáumst ekki. Þannig að þetta er ekki eins og ég hafi verið einhversstaðar á Grænlandsjökli í fimm ár og ekki séð konuna mína,“ segir Jóhann Axel hlægjandi.

Jóhann Axel lék í leikritinu Elska þegar hann kom heim frá New York.

Byrjar eftir áramót í fullu starfi sem leikari
Jóhann segir það alltaf hafa verið planið að koma aftur til Akureyrar eftir nám og hafði fulla trú á því að hér væri framtíð fyrir leikara. Hann hefur ávallt unnið markvisst að því að verða atvinnuleikari og gera það sem hann elskar. Hann ólst upp á sviðinu og þar vissi hann strax að þetta vildi hann gera og er í skýjunum að fá tækifæri til þess.
,,Ég útskrifast, kem heim og geri eina sýningu sem heitir Elska, sem var alveg frábær sýning til að gera strax eftir að námi lauk. Þar fékk ég að leika mjög víðan hóp af karakterum sem virkaði svona pínu eins og sýning á öllum þeim mismunandi hlutverkum sem ég get túlkað og hef vonandi gert það vel.“

Öll 37 verk Shakespeare á 97 mínútum
Sjeikspír eins og hann leggur sig er sýning á vegum Leikfélags Akureyrar sem sýnt verður í Samkomuhúsinu í byrjun næsta árs. Verkið er hraður gamanleikur og bráðfyndinn útúrsnúningur á öllum 37 verkum Shakespeare á aðeins 97 mínútum. Jóhann Axel fer með eitt af aðalhlutverkunum, ásamt Sesselíu Ólafsdóttur og Benedikt Gröndal en þau eru aðeins þrjú sem leika í sýningunni.
Vilhjálmur B. Bragason er að þýða og staðfæra verkið og gríndúettinn Vandræðaskáld gera tónlistina.
Þá byrja æfingar á fullu strax 1. janúar og frumsýning verður í byrjun mars.

Aðspurður hvað taki við eftir það segir Jóhann Axel hlægjandi: ,,Eigum við ekki bara að gera eitt í einu og gera það vel?“ Hann bætir svo við að margt sé í pípunum en það komi bara í ljós hvað tekur svo við.

Listalífið á Akureyri búið að taka svakalegum framförum
Jóhann segir það alveg frábært hversu mikið er að gerast, og hefur verið að gerast undanfarin ár, í listum og listsköpun á Akureyri. Hann segist einmitt hafa komið heim á réttum tíma þar sem að sífellt fleira fólk úr sviðslistum og öðrum listgreinum er að koma aftur til Akureyrar og vill vera þar. Hann segir það ómetanlegt að hafa stóra bakhjarla eins og Mak og LA sem styrkja listsköpun verulega.

,,Ég vil bara hvetja Akureyringa til að vera duglegir að fara í leikhús og fagna því hvað það er orðið fjölbreytt úrval af vönduðum listsýningum hér, hvort sem það eru tónleikar, danssýningar eða leikrit. Ef við höldum áfram á þessari braut verður Akureyri enn þá frambærilegra og það er bara frábært hvernig þetta er að þróast,“ segir Jóhann Axel að lokum.

Jóhann Axel að leika í leikriti í New York en hann er útskrifaður úr Stella Adler Studio of Acting.

Viðtalið birtist upphaflega í fréttablaðinu Norðurlandi í desember.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó