Ræða stöðu innanlandsflugs á Íslandi – Farþegum fækkað um 10%

Ræða stöðu innanlandsflugs á Íslandi – Farþegum fækkað um 10%

Fulltrúar flugfélaga og Isavia koma saman á fundi í dag með umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis til að ræða stöðu innanlandsflugs á Íslandi. Farþegum í innanlandsflugi hefur fækkað um tíu prósent og munar mest um erlenda farþega sem hefur fækkað um 30 til 40 prósent. Þetta kemur fram í frétt Rúv um málið. Flugfélagið Air Iceland Connect fækkar ferðum til Egilsstaða og Ísafjarðar í vetur og hefur þegar fækkað flugvélum sínum um þriðjung.

Leggja til að ríkið niðurgreiði innanlandsflug að hluta

Fundurinn er að beiðni Vilhjálms Árnasonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, sem telur stöðuna alvarlega. Verið er að skoða hvort þörf sé á að fara skosku leiðina til að bæta innanlandsflugið, sem felur í sér niðurgreiðslu ríkisins á innanlandsflugi tiltekinna íbúa á landsbyggðinni. Verið er að útfæra kerfið í nýrri samgönguáætlun sem verður þó ekki til fyrr en á næsta ári og leysir því ekki vandann í vetur.

„Við höfum ákveðnar leiðir sem við höfum lagt fram umhverfis- og samgöngunefndin sem er svokölluð skoska leiðin, sem við leggjum til í nýsamþykktri samgönguáætlun. Við viljum fá að vita hvort það að flýta innleiðingu skosku leiðarinnar eins og hægt er myndi hjálpa eða hvort að það sé eitthvað fleira sem við þurfum að gera til að bæta þessa erfiðu stöðu sem innanlandsflugið er komið í,“ segir Vilhjálmur í samtali við Rúv.

UMMÆLI