Í dag kemur út fyrsta plata akureyrsku tónlistarkonunnar Rakel Sigurðardóttur, RAKEL. Platan heitir a place to be. Hin virta breska tónlistarsíða The Line of Best Fit birti í gær viðtal við RAKEL þar sem hún er nefnd sem næsta stjarna íslenskrar tónlistar. Hægt er að lesa viðtalið hér.
RAKEL þarf vart að kynna fyrir íslenskum tónlistarunnendum enda hefur tónlist hennar reglulega ratað á topp vinsældarlista hér á landi. Hún hefur troðið upp með fjölmörgu þjóðþekktu og heimsþekktu tónlistarfólki eins og Lón, Ceasetone, Nönnu, Damon Albarn, Axeli Flóvent og fleirum og hlotið ýmsar viðurkenningar og verðlaun fyrir tónlist sína.
a place to be inniheldur tíu lög. Platan varð til á Stað í Hrútafirði, sveitabænum þar sem afi Rakelar ólst upp. Árið 1960 stofnaði hann, ásamt bróður sínum, vegasjoppuna Staðarskála. Þangað fór Rakel með SBA Norðurleið hvert einasta sumar unglingsára hennar til þess að selja pylsur og aðrar kræsingar. Það kom að því að Staðarskáli var seldur, þjóðvegurinn færður og ferðunum á Stað fækkaði. Undanfarin ár hefur Rakel þó reynt að heimsækja þetta annað æskuheimili oftar, en nú í nýjum tilgangi: Að semja tónlist. Afrakstur þessarra ferðalaga er platan a place to be.
Á plötunni spilar einvala lið tónlistarfólks en þar má nefna Nönnu og Ragnar úr Of Monsters and Men, Skúla Sverrisson, Kasper Staub (Lowly), Salóme Katrínu, Berg Þórisson, Björgu Brjánsdóttur og Ómar Guðjónsson. Platan er mixuð af Lukas Loeb og masteruð af Zino Mikorey.
Í dag kom einnit út nýtt myndband við lagið always sem er á nýju plötunni. Myndbandið er skotið á 8mm filmu af austurríska ljósmyndaranum Ninu Maria Allmoslechner, en í því sjáum við RAKEL snúa aftur á Stað.
HORFA á nýtt myndband við „always“


COMMENTS