Reisa nýja stólalyftu í Hlíðarfjalli

Reisa nýja stólalyftu í Hlíðarfjalli

Akureyrarbær og Vinir Hlíðarfjalls, fyrir hönd óstofnaðs einkahlutafélags, hafa undirritað samning um að félagið fjármagni kaup á nýrri stólalyftu sem sett verður upp í Hlíðarfjalli fyrir haustið 2018.

Vinir Hlíðarfjalls munu sjá um kaup á lyftunni og að hún verði reist en Akureyrarbær leigir hana síðan og rekur samkvæmt sérstökum samningi. Að loknum 15 ára leigutíma á Akureyrarbær forkaupsrétt á skíðalyftunni á verði sem samsvarar bókfærðu verði hennar á þeim tíma. Skíðalyftan mun rísa sunnan við núverandi Stromplyftu og samkvæmt núverandi skipulagi.

Keypt verður notuð skíðalyfta af gerðinni Doppelmayr. Hún verður kærkomin viðbót við þær lyftur sem fyrir eru á skíðasvæðinu í Hlíðarfjalli sem er eitt það albesta á landinu. Í Hlíðarfjalli er nú ein fjögurra sæta stólalyfta, fjórar toglyftur, togbraut og skemmtilegt „töfrateppi“ fyrir allra yngsta skíðafólkið.

Áætlaður heildarkostnaður við verkið er 363 milljónir króna en félagið fjármagnar framkvæmdina með 100 milljóna króna hlutafé og 263 milljóna króna láni til 15 ára. Leigufjárhæðin til Akureyrarbæjar mun nema afborgunum, vöxtum og verðbótum af láninu á hverjum tíma.

UMMÆLI