Rúmlega átjánhundruð eldingar í nótt

Rúmlega átjánhundruð eldingar í nótt

Margir urðu varir við þrumuveðrið sem gekk yfir landið í gærkvöldi og nótt. Þetta er mesta þrumuveður sem hefur gengið yfir Ísland síðan beinar mælingar og staðsetningar á eldingum hófust (1998). Þetta kemur fram í tilkynningu frá veðurstofu í morgun.

Skráðar voru 1818 eldingar víðsvegar á landinu en íbúar á Laugum og þar í kring urðu varir við eldingar sem laust niður á Laxárdalsheiði. Þrumuveðrið hefur verið rætt töluvert á samfélagsmiðlum þar sem fólk lýsir því að hafa vaknað við lætin sem því fylgdi.

Veðrið stóð í heilan sólahring en fyrsta eldingin var skráð kl. 06:46 þann í gær og sú síðasta kl. 07:05 í morgun. Mestu þrumurnar og eldingarnar voru milli 18 og 23 í gær á suðausturlandinu en voru talsvert áberandi á Norðurlandinu í morgun.

Þrumuveðrið er bein afleiðing af hitanum sem nú er á landinu en áhrifa hitabylgjunnar í Evrópu gætir nú hér á landi. Hlýr loftmassi er yfir landinu og hitamet þessa árs féllu tvívegis á síðustu tveimur dögum.

.Skráðar eldingar síðustu 24 klst. á landinu. Mynd: Veðurstofa Íslands.
Sambíó

UMMÆLI