beint flug til Færeyja

SA Víkingar Íslandsmeistarar – Tuttugasti Íslandsmeistaratitill SA

SA Víkingar Íslandsmeistarar 2018.
Mynd: Þórir Tryggvason.

SA Víkingar unnu Esju á laugardaginn í þriðja sinn í úrslitkeppni karla í íshokkí með sex mörkum gegn tveimur og tryggðu sér þar með Íslandsmeistaratitilinn árið 2018. SA Víkingar unnu einvígið 3-0 en titillinn var sá 20. í röðinni hjá félaginu. SA Víkingar áttu stórgott ár því liðið er bæði deildar- og Íslandsmeistarar og tapaði aðeins tveimur leikjum í venjulegum leiktíma í vetur. Leikurinn í gærkvöld var einnig sögulegur fyrir þær sakir að hann var kannski síðasti leikur Esju í íslensku íshokkí en liðið hefur tilkynnt að það verði ekki með á næsta tímabili.

SA Víkingar byrjuðu leikinn af krafti og náðu strax forystunni á fimmtu mínútu leiksins með baráttumarki frá Jóhanni Leifssyni. Þetta kemur fram á vef SA. Bart Moran bætti við öðru marki fyrir Víkinga tveimur mínútum síðar og staðan var 2-0 eftir fyrstu lotuna. Í upphafi seinni lotu fengu Esju menn vítaskot en Tim í marki Víkinga varði skot Egils Þormóðssonar. Um miðja lotuna brutu tveir leikmenn Esju af sér á einum leikmanni Víkinga og misstu því tvo leikmenn í refsiboxið á sama tíma. SA Víkingar nýttu sér liðsmuninn og Bart Moran setti pökkinn örugglega í markhornið og jók muninn í 3 mörk. Jóhann Leifsson skoraði svo fjórða mark Víkinga skömmu síðar og staðan því orðin nokkuð góð að því virtist fyrir Víkinga. Undir lok lotunnar skall leikmaður Esju á Tim í marki Víkinga sem kastaðist úr markinu og Jan Semorad nýtti sér það og setti pökkinn í óvarið markið og minnkaði muninn í þrjú mörk en staðan var 4-1 fyrir síðustu lotuna. Í upphafi þriðju lotu minnkaði Pétur Maack muninn í tvö mörk en nær komst Esja ekki því Jordan Steger skoraði fimmta mark Víkinga skömmu síðar. Andri Már Mikaelsson gulltryggði svo sigur Víkinga með góðu marki og SA Víkingar fögnuðu 20. Íslandsmeistaratitli félagsins ákaft ásamt stuðningsmönnum sínum sem létu vel í sér heyra í stúkunni.

 

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó