Akureyri-Færeyjar

Samræmd þjónusta við flóttafólk á Akureyri

Samræmd þjónusta við flóttafólk á Akureyri

Félagsmálaráðuneytið og Akureyrarbæjr hafa undirritað samning sem felur í sér samræmda og bætta þjónustu við fólk sem hefur fengið alþjóðlega vernd eða dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Þetta kemur fram á vef bæjarins.

Þar segir að bæjarráð hafi nýverið samþykkt þátttöku Akureyrarbæjar í reynsluverkefni til eins árs á vegum félagsmálaráðuneytisins um móttöku flóttafólks.

Samningurinn er afturvirkur til 1. apríl 2020 og gildir því um flóttafólk sem hefur komið frá þeim tíma til og með 31. mars næstkomandi. Fjárframlag frá ríkinu vegna þjónustunnar miðast við sértækan stuðning í 12 mánuði frá því að einstaklingur hefur skráð lögheimili sitt í sveitarfélagið.

Hlutverk Akureyrarbæjar, sem móttökusveitarfélags, er meðal annars að tryggja að ákveðin þjónusta sé til staðar og stuðla að samvinnu þeirra aðila sem koma að fjölbreyttri þjónustu við flóttafólk.

Markmiðið er fyrst og fremst að bæta þjónustu við flóttafólk og taka þátt í því, ásamt öðrum sveitarfélögum og stofnunum, að móta þennan málaflokk til framtíðar.

UMMÆLI