Sara Mist Gautadóttir, klínískur næringarfræðingur, hefur verið ráðin í starf yfirnæringarfræðings á SAk. Staðan var auglýst til umsóknar í september sl. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Sjúkrahúsinu á Akureyri á Facebook.
Sara Mist lauk meistaranámi í klínískri næringarfræði frá Háskóla Íslands árið 2024. Hún er starfsfólki og sjúklingum SAk ekki ókunn, þar sem hún hefur starfað þar bæði sem meistaranemi í klínískri næringarfræði og síðar í tímabundnu starfi.
„Ég er afar spennt fyrir því að halda áfram þeirr góðu og mikilvægu vinnu sem unnin hefur verið síðustu misseri. Ég hlakka til að leggja mitt af mörkum við að efla næringarþjónustuna á spítalanum og halda áfram að þróa starfið með öllum þeim tækifærum sem það býður upp á,“ segir Sara í tilkynningu SAk.
Starf yfirnæringarfræðings felur meðal annars í sér að sinna næringarþjónustu innan spítalans, vinna að sérverkefnum tengdum næringu og næringarmeðferðum, auk þess að veita göngudeildarþjónustu.
Sara Mist starfar í nánu samstarfi við Rakel Ósk Björnsdóttur, hjúkrunarfræðing, sem hefur á undanförnum árum sinnt næringartengdri hjúkrun á SAk og er mikilvægur hluti af næringarteyminu.


COMMENTS