„Sáum alltaf fyrir okkur að þetta fyrirbæri yrði meira heldur en bara fatabúð“

„Sáum alltaf fyrir okkur að þetta fyrirbæri yrði meira heldur en bara fatabúð“

Æskuvinkonurnar Sóley Eva Magnúsdóttir og Ylfa Rún Arnarsdóttir opnuðu vintage fataverslunina Kex Studio í iðnaðarbili við Týsnes 14 á Akureyri í september síðastliðnum. Í Kex Studio selja þær notuð föt ásamt list og hönnun eftir íslenskt listafólk og bjóða upp á skapandi rými fyrir Akureyringa.

Sóley og Ylfa eru fæddar og uppaldar á Akureyri og í samtali við Kaffið segjast þær báðar brenna fyrir sköpun í marvíslegu form. Þær vilja deila þeirri ástríðu með öðrum í gegnum Kex Studio og þjóna ákveðnu grasrótarhlutverki í bænum með því að gefa listafólki tækifæri á að koma sér á framfæri.

Ylfa er lærður húsasmiður frá VMA og Sóley lærði sviðslistir í MA og kvikmyndagerð í FNV. Þær segja að hugmyndin að því að opna vintage fatabúð á Akureyri hafi komið síðastliðið vor og síðan þá hafi hlutirnir gerst hratt.

„Okkur fannst hreinlega bara ekki eftir neinu að bíða. Þannig daginn eftir að okkur datt þetta í hug bárum við þetta undir teymið í Drift EA sem er frumkvöðlasetur á Akureyri og fengum góð viðbrögð frá þeim. Eftir það fórum við bara strax að leita af húsnæði. Það var ekki mikið í boði af verslunarhúsnæðum þannig iðnaðarbils-fatabúðar-hugmyndin var svona eiginlega bara við að gera það besta úr því sem var í boði. Við teljum að það hafi bara vakið meiri forvitni og áhuga frá fólki frekar en að vera hindrun,“ segja vinkonurnar í spjalli við Kaffið.

„Vintage tíska er eitthvað sem við höfum báðar alltaf haft áhuga á og eftir að hafa búið erlendis fannst okkur þurfa að bæta úrvalið hérna heima. Síðan vissum við af svo mörgu upprennandi listafólki sem var gera svo flotta hluti sem okkur fannst vanta viðeigandi rými til að koma sér á framfæri svo að við ákváðum að blanda þessum tveimur hlutum saman. Það er kannski líka skemmtilegt að segja frá því að nafnið Kex Studio kemur frá þeirri hugmynd að nýta gamla húsnæði Kexsmiðjunnar á Akureyri sem verslunarrými. Sú hugmynd varð því miður ekki að veruleika en nafnið lifði áfram.“

Þær segja að markmiðið með skapandi rými sé einnig að upphefja félags- og menningarlífið á Akureyri. Markhópuinn sé að stóru leyti ungt fólk á Norðurlandi.

„Þetta viljum við gera með því að halda skemmtilega viðburði, pop-up búðir og vinnustofur. Við sáum alltaf fyrir okkur að byggja upp samfélag með Kex Studio, að þetta fyrirbæri yrði meira heldur en bara fatabúð.“

Þær segjast græða mikið á því að fá félagslegan og fræðslumiðaðan stuðning frá Drift EA. „Það er mjög gott fyrir unga frumkvöðla eins og okkur sem eru að læra inn á rekstur að vera með stað og fólk sem hægt er að beina öllum spurningum sem vakna til og fá ráðgjöf og leiðbeiningu.“

Hægt er að fylgjast með Kex Studio á samfélagsmiðlum þar sem að Sóley og Ylfa sýna meðal annars frá öllu ferlinu þegar þær breyta iðnaðarbili í fatabúð. @kexstudio á Instagram og @kexcreativestudio á TikTok.

COMMENTS