Siggi Gunnars í nærmynd – „Starf útvarpsmanns er í rauninni mjög skrítið“

Sigurður Þorri Gunnarsson, betur þekktur sem Siggi Gunnars, hefur síðastliðin ár orðið einn fremsti útvarpsmaður landsins en hann starfar sem dagskrár- og tónlistarstjóri útvarpstöðvarinnar K100. Auk þess er Sigurður í fjöldanum öllum af öðrum verkefnum, ýmist sem plötusnúður, veislustjóri, fyrirlesari og nú síðast einn eftirsóttasti Spinning-kennari landsins.

Sigurður Þorri Gunnarsson.

„Fyrst og fremst er ég bara útvarpsnörd“
Sigurður er Akureyringur og byrjaði útvarpsferil sinn aðeins 12 ára gamall heima á Akureyri þegar hann stofnaði sína fyrstu útvarpsstöð. Hann útskrifaðist úr fjölmiðlafræði við Háskólann á Akureyri árið 2012 og hélt strax í kjölfarið út til Bretlands þar sem hann kláraði mastersnám í fjölmiðlafræði með áherslu á útvarpsfræði. Sigurður vann bresku Útvarpsverðlaunin árið 2013 fyrir heimildaþátt sem hann gerði.
Eftir að námi hans í Bretlandi lauk hélt hann heim til Íslands í tveggja vikna frí sem varð síðan til þess að hann fór ekkert út aftur.
„Þetta lengdist aðeins. Ég ætlaði mér alltaf að halda áfram í Bretlandi en svo kom ég heim í frí og hér er ég enn. Ég fékk spennandi atvinnutilboð hjá K100 og ákvað bara að slá til. Þetta er náttúrlega draumastarfið. Ég er algjört útvarpsnörd og stefndi alltaf að því að komast í svona stöðu og það var frábært að ná því markmiði. Maður er að lifa drauminn á hverjum einasta degi,“ segir Siggi um tveggja vikna stoppið á Íslandi sem varð að fimm árum.

Fjölmiðlaáhuginn kviknaði snemma.

Útvarpið er stóra ástin
Siggi segir útvarp vera langskemmtilegasta miðilinn og eigi sér bjarta framtíð, jafnvel bjartari en aðrir miðlar. Hann smitaðist strax af útvarpsveikinni sem barn og ætlaði sér alltaf að ná langt í bransanum. Hann gefur því lítinn gaum að fólk spái því að útvarpið deyi út á næstu árum, eins og lengi hefur verið haldið fram.
„Það er búið að spá dauða útvarpsins alveg ótrúlega lengi. „Video killed the radio star“ kom sko út 1978. Geisladiskurinn átti að drepa útvarpið, mp3 spilarinn átti að drepa útvarpið og ég spyr hvar þessir tveir hlutir eru í dag? Og núna á Spotify að drepa útvarpið en staðreyndin er sú að Spotify hefur aðallega haft slæm áhrif á útgáfu tónlistar í föstu formi.“
Hann segir stærstan hluta fólks vilja láta mata sig af nýjustu tónlistinni. Það sé að sjálfsögðu alltaf ákveðin prósenta af fólki sem grúskar í tónlist og býr til sína lista, fyrst með upptökum á kassettum, síðan brenndum geisladiskum og nú á streymisveitum sem þau hlusta á með bluetooth-tækninni í bílunum sínum. „Stór hluti fólks vill bara láta mata sig af tónlist. Flestir eiga kannski einn Spotify-playlista sem þeir hafa þurft að hafa mikið fyrir að búa til og nenna svo ekki að gera annan. Þannig að tónlistarútvarp lifir góðu lífi!“

90% þjóðarinnar hlusta á útvarp í hverri viku

Hann bendir á að samkvæmt nýjustu hlustendakönnunum hlusti 90% þjóðarinnar á útvarp í hverri einustu viku og svipaðar tölur má finna í nágrannalöndum okkar. Í sjónvarpi, dagblöðum og öðrum miðlum hafa tölur dregist verulega saman og hann spáir því hreinlega að útvarpið komi til með að halda sér best.
„Útvarpið er eini hefðbundni miðillinn sem nær að halda sér því hann nær að smjúga inn í flest tæki sem við notum á hverjum degi. Það er í símanum þínum, sjónvarpinu, bílnum og svo framvegis. Þetta er eini miðillinn sem þú getur gert eitthvað annað á meðan þú ert að nota hann, þú getur verið að strauja, vaska upp eða hvað sem er án þess að missa af neinu. Þar heyrirðu líka tónlist, fréttir, viðtöl o.s.frv., allt í bland.“

Siggi Gunnars á Spinning-hjólinu með Hafdísi Björg á herðum sér.

Í kringum 250 manns vilja komast í Spinning með Sigga Gunnars þrisvar í viku
Spinning með Sigga Gunnars hefur slegið rækilega í gegn á höfuðborgarsvæðinu en þessar vinsældir komu alveg flatt upp á Sigurð. Nú kennir hann í Spinning-tímum þrisvar sinnum í viku í sal sem rúmar 120 manns. Í öllum tímum er fullt út úr dyrum og færri komast að en vilja og fylgir tímunum biðlisti þar sem hátt í hundrað manns skrá sig hverju sinni og vonast til að vera með.
„Eins og margt í mínu lífi gerðist þetta fyrir algjöra tilviljun. Ég átta mig ekkert alveg á þessu en ég ákvað bara að búa til tíma sem ég myndi vilja mæta í sjálfur. Ég er kannski ekki alveg þessi týpíska ræktartýpa en ég vildi búa til tíma sem höfðuðu til mín og greinilega höfða þeir til fleira fólks. Þetta er aðeins öðruvísi upplifun en að koma í ræktina dagsdaglega. Fyrst og fremst snýst þetta um að þjálfa líkamann en líka sálina og hjartað. Ég legg mikið upp úr því að láta sér líða vel í þessum tíma.“

Aðsókn í Spinning fjórfaldast
Spinning-ævintýri Sigga hófst fyrst fyrir tilviljun þegar hann ákvað að slá til og vera gestakennari með Hafdísi Björgu, spinning-kennara, fyrir gott málefni í Reebok fitness. Í kjölfarið fékk hann fastan tíma í Reebok-fitness á laugardagsmorgnum í sal sem rúmar 30 manns í einu. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þá þar sem hann er farinn að kenna Spinning þrisvar sinnum í viku í World Class í mun stærri sal.

„Þetta er algjört draumastarf, að geta unnið við það að hreyfa sig og vinna við áhugamálin sín. Maður er ótrúlega þakklátur fyrir það að vinna dagsdaglega við áhugamálin sín, útvarp og að kenna Spinning, sem er orðið áhugamál í dag.“

Sigurður unir sér best í hljóðverinu.

„Situr í herbergi og talar út í loftið“
„Starf útvarpsmanns er í rauninni mjög skrítið þegar þú hugsar um það. Þú situr einn í einhverju herbergi og talar í míkrófón. Þú veist ekkert hversu margir eru að hlusta, hverjir eru að hlusta eða hreinlega hvort einhver sé að hlusta. Þetta er náttúrlega ofboðslega skrítið starf þegar þú smættar það svona niður. Situr bara í herbergi og talar út í loftið,“ segir Siggi um útvarpsstarfið.
Hann segir að markmiðið með að fara í útvarp hafi aldrei verið að verða frægur. Hann hafi hreinlega orðinn ástfanginn af því að búa til útvarp. Þetta er „opinbert“ starf sem fylgir oftar en ekki einhvers konar áreiti en hann tekur því bara fagnandi og segir það ávallt fara kurteisilega fram.
„Útvarp er mjög náinn miðill, oft er fólk eitt að hlusta og maður nær tengingu við það. Það gefur mér mikið þegar fólk stoppar mig úti á götu og segist hlusta á hverjum einasta degi og þykir vænt um þáttinn eða eitthvað slíkt. Ég er alltaf mjög hissa þegar fólk veit hver ég er og þykir auðvitað voða vænt um það þegar fólk „fílar“ það sem ég er að gera. Fyrst og fremst er ég bara útvarpsnörd sem allt í einu einhver veit hver er.“

„Það finnst aldrei öllum þú geggjaður“
Fjölmiðlabransanum fylgja líka neikvæðar hliðar og algengt að sjá ljótar athugasemdir á netinu um ýmsa sem starfa á fjölmiðlum. Siggi segir mikilvægt að læra að brynja sig fyrir slíkum athugasemdum og læra að það er ekki hægt að gera öllum til hæfis. Hann segist sjálfur ekki hafa lent illa í því en kollegar hans í bransanum hafi oft á tíðum fengið ósanngjarna meðferð á netinu.
„Lífið er því miður ekki þannig að öllum finnist maður alveg geggjaður. Stundum held ég að fólk gleymi því að það eru persónur á bakvið fjölmiðlafólkið þegar það setur fram eitthvað á internetið.

Flytur fyrirlestra og kennir ungu fólki að samþykkja sjálft sig
Til viðbótar við Spinning, K100, skrif í Morgunblaðið, plötusnúðagigg og veislustýringar hefur Siggi  flutt fyrirlestra, bæði í grunnskólum og framhaldsskólum. Efni fyrirlestranna er misjafnt, þar ræðir hann  um útvarp og fjölmiðla almennt en einnig um Sjálfið.
,,Þetta er svona hliðarverkefni sem gerir mjög mikið fyrir mig. Að tala við unga fólkið, segja því mína sögu og vonandi getur einhvern tengt við hana og hún hjálpað til. Svo er þetta líka rosalega gaman.“
„Vertu þú sjálfur“ er fyrirlestur þar sem Siggi fjallar um mikilvægi þess að samþykkja sjálfan sig eins og maður er og elska sjálfan sig. Fyrirlesturinn hefur hann flutt í fjölmörgum skólum bæði sunnanlands og norðan fyrir unglingastig í grunnskólum og í framhaldsskólum.
„Það er alveg nóg að gera allavega. Meðan það er gaman þá heldur maður bara áfram á fullu, þetta snýst um það,“ segir Siggi Gunnars að lokum.

Viðtalið birtist upphaflega í Norðurlandi 8. febrúar.

Sambíó

UMMÆLI