Prenthaus

Siglufjörður fagnar 100 ára kaupstaðarafmæli

Mynd: Fjallabyggð/ Jón Steinar Ragnarsson.

Siglufjörður fagnar 100 ára kaupstaðarafmæli á sunnudaginn með stórglæsilegri afmælisdagskrá fyrir bæjarbúa og aðra nærsveitunga. Siglufjörður er nyrsti kaupstaður Íslands og stendur við lítinn, samnefndan fjörð, undir háum fjöllum. Siglufjörður hefur eina bestu höfn landsins en fáir bæir á Íslandi eiga sér jafn viðburðaríka sögu í gengi fiskveiða og sjávarútvegsfyrirtækja og Siglufjörður. Í kringum 1.300 manns búa á Siglufirði en mikil uppbygging hefur verið í kaupstaðnum síðastliðin ár og fjörðurinn meðal vinsælustu áfangastaða ferðamanna á Norðurlandi en opnun Héðinsfjarðarganga árið 2010 var mikil lyftistöng fyrir bæinn og gerði kaupstaðinn mun aðgengilegri.

Siglufjörður hlaut einnig töluverða frægð út fyrir landsteinana eftir að þáttaröðin Ófærð var sýnd í sjónvarpinu í þó nokkrum löndum. Þar lék Siglufjörður stórt hlutverk en meira og minna öll þáttaröðin var tekin upp þar.

Vegleg afmælisdagskrá

Afmælisdagskrá sunnudagsins er ekki af verri endanum en stíf dagskrá og skemmtiatriði verða í boði meira og minna allan daginn.
Í íþróttahúsi Fjallabyggðar á Siglufirði verður haldinn hátíðarfundur í bæjarstjórn Fjallabyggðar þar sem m.a. forseti bæjarstjórnar, bæjarstjóri Fjallabyggðar og forsætisráðherra munu ávarpa gesti. Karlakór Fjallabyggðar og nemendur tónlistarskólans á Tröllaskaga munu flytja tónlistaratriði. Fjölskylduskemmtun verður haldin í íþróttahúsinu á Siglufirði þar sem Björgvin og Bíbí sjá um að skemmta ungum sem öldnum.
Að lokum er boðað til hátíðarkaffisamsætis þar sem bæjarbúum er boðið að þiggja veitingar og hlýða á tónlistaratriði í íþróttahúsinu á Siglufirði kl. 16. Dagskrána má sjá hér að neðan.

Kl. 15:00   Íþróttahúsið á Siglufirði – Fjölskylduskemmtun; Björgvin og Bíbí. Allir velkomnir

Sunnudagur 20. maí Afmælisdagurinn

Kl. 09:00   Fánar dregnir að húni
Kl. 11:00   Fermingar- og afmælismessa í Siglufjarðarkirkju
Íþróttahús Fjallabyggðar á Siglufirði

Kl. 14:30-16:00 Hátíðarfundur í bæjarstjórn Fjallabyggðar

 • Ávarp forseta bæjarstjórnar – Tímamótasamþykkt bæjarstjórnar
 • Bæjarstjóri Fjallabyggðar, Gunnar I. Birgisson, setur hátíðina
 • Ávarp forsætisráðherra, Katrínar Jakobsdóttur
 • Tónlistaratriði – Nemendur Tónlistarskólans á Tröllaskaga
 • Tónlistaratriði – Karlakór Fjallabyggðar
 • Ávarp – Vildarvinir Siglufjarðar/Siglfirðingafélagið
 • Ávarp fulltrúa vinabæja Siglufjarðar
 • Tónlistaratriði – Nemendur Tónlistarskólans á Tröllaskaga

Kl. 16:00-17:30 Hátíðarkaffi fyrir bæjarbúa og aðra gesti í Íþróttahúsinu á Siglufirði

Tónlistaratriði;
Sturlaugur Kristjánsson, bæjarlistamaður Fjallabyggðar
Síldargengið kíkir í heimsókn
Kór eldriborgara í Fjallabyggð
Gómarnir, sönghópur
 Aðrir viðburðir í Fjallabyggð afmælishelgina 19.- 20. maí

 • Grána – Dagskrá til heiðurs sr. Bjarna Þorsteinssyni þjóðlagasafnara, laugardaginn 19. maí kl. 15.30
 • Síldarminjasafnið er opið alla helgina
 • Alþýðuhúsið á Siglufirði; Sunnudagskaffi með skapandi fólki, Ómar Hauksson, bókhaldari og sögumaður á Siglufirði.
 • Kompan, gallerí;  Kristján Steingrímur Jónsson, Reykjavík.
 • Ljóðasetur Íslands; Opnun sýningar: Ljóðabækur og kveðskapur tengdur Siglufirði.
 • Ráðhússalurinn. Opnun sýningar Ólafar Birnu Blöndal. „Þótt líði ár og öld“
 • Siglfirðingafélagið með opið hús í Bláa húsinu:
 • Myndasýning gamalla húsa
 • Andlit bæjarins frá 1960
Sambíó

UMMÆLI

Sambíó