Silja Dögg gefur ekki kost á sér áfram

Silja Dögg Baldursdóttir.

Silja Dögg Baldursdóttir hefur setið í bæjarstjórn síðastliðin fjögur ár fyrir L listann en gefur ekki kost á sér í forystusæti fyrir komandi bæjarstjórnarkosningar. L listinn mun opinbera framboðslista sinn 18. mars næstkomandi þegar listinn fagnar 20 ára afmæli. Silja Dögg sendi frá sér tilkynningu í dag þar sem hún þakkar fyrir kjörtímabilið og segist ekki gefa kost á sér áfram. Hana má lesa í heild sinni hér að neðan:

Kæri vinur
Ég hef stundað trúnaðarstörf fyrir L listann frá árinu 2002. Síðustu fjögur árin hef ég setið í bæjarstjórn og sinnt ýmsum stjórnar og nefndarstörfum fyrir Akureyrabæ. Þetta tímabil hefur verið mikill skóli og verkefnin hafa verið krefjandi, skemmtileg og gefandi. Ég hef fengið að kynnast og starfa með frábæru fólki, bæði samstarfsmönnum í bæjarmálunum sem og starfsmönnum bæjarins. Ég tel nú sem áður gríðarlega mikilvægt að konur og ungt fólk taki virkan þátt í stjórnmálum og umræðu um þau. Við fáum alltaf besta samfélagið þegar sem fjölbreyttasti hópurinn vinnur saman og þeirra rödd þarf að heyrast. Ég hvet alla þá sem eru enn í skápnum að drífa sig út.

Ég sjálf hef tekið ákvörðun um mína þátttöku í komandi kosningum og hef ákveðið að gefa ekki kost á mér í forystu sæti. Ég hef ákveðið að eltast við annan draum sem settur var á bið fyrir fjórum árum síðan. Ég mun styðja við, og fylgja, L listanum í komandi kosningabaráttu – ég er L lista manneskja í hjarta mér og verð það ávallt.
Ég veit að L listinn hefur meðbyr, ég veit að frambærilegt og öflugt fólk ætlar fram, og fer því bjartsýn og jákvæð inn í þennan skemmtilega tíma.
Þrátt fyrir ákvörðun mína núna um að gefa ekki kost á mér í komandi kosningum þá er L listinn í líkingu við fyrrverandi kærasta sem ég hitti reglulega yfir kaffisopa og engri loku fyrir það skotið að þráðurinn verði tekinn upp á nýjan leik á öðrum tíma.

Síðustu fjögur ár hefur verið frábær tími og ég er þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri, og verið treyst til, að vera virkur þátttakandi í uppbyggingu samfélagsins okkar.

Silja Dögg Baldursdóttir

UMMÆLI

Sambíó