Símey býður upp á fjölda námskeiða í fjarnámi

Símey býður upp á fjölda námskeiða í fjarnámi

Hjá SÍMEY hefur nám verið fært á vefinn, þar sem því verður við komið, og meðan á samkomubanni stendur verður námshópum ekki kennt í staðnámi. Húsnæði SÍMEY við Þórsstíg hefur því verið lokað fyrir öllum nema starfsmönnum og eins og á fjölmörgum öðrum vinnustöðum vinnur hluti þeirra nú heima til þess að fyrirbyggja hættu á smiti. Þrátt fyrir að húsnæði SÍMEY hafi verið lokað hefur starfsemin ekki stöðvast, þvert á móti heldur hún áfram af fullum krafti en með öðrum hætti. Það gildir um framhaldsfræðsluna í landinu eins og framhalds- og háskólana að frá og með síðustu helgi var fyrirkomulagi kennslu gjörbreytt.

Námið fært á netið

Valgeir Magnússon, framkvæmdastjóri SÍMEY, segir það hafa verið mikla áskorun fyrir starfsmenn SÍMEY og kennara þegar fyrir lá að þyrfti að breyta staðnámi í fjarnám, þar sem því yrði við komið. En málin hafi verið unnin hratt í þessari viku og tekist hafi að færa námið yfir á vefinn jafnframt því sem haft hafi verið samband við nemendur. Námskeiðin eru fjölbreytt og að sama skapi segir Valgeir mismunandi hvernig gangi að kenna þau í vefumhverfi. En í góðu samstarfi kennara og nemenda og með réttum tæknilausnum sé hægt að ná ótrúlegum árangri.

Valgeir segir að á stuttum tíma hafi SÍMEY sett upp ýmis stutt námskeið á netinu sem tengist þeim veruleika sem samfélagið glími nú við.

Námskeið fyrir einstaklinga og fyrirtæki á fjölmörgum sviðum

„Öll þessi námskeið kennum við á vefnum og við höfum verið að vinna að því að setja upplýsingar um þau á heimasíðuna okkar. Sum þessara námskeiða höldum við í samstarfi við vinnustaði og stéttarfélögin og þau tengjast m.a. verkefnastjórnun, fjarvinnu, skipulagsmálum og streitu. Við ætlum líka að bjóða upp á námskeið fyrir atvinnuleitendur á netinu. Auk þess höfum við verið að vinna að því að færa nám á lengri námsbrautum sem hafa verið í gangi í vetur yfir á vefinn. Þetta á til dæmis við um námsbrautina Sölu, markaðs- og rekstrarnám og Leikskólaliða og stuðningsfulltrúabrú. Námið hefur verið fært yfir á Microsoft Teams, en það kerfi býður upp á samtöl við nemendur, gagnvirkni af ýmsum toga o.fl. Námsefnið er vistað þar eða á Innu,“ segir Valgeir og bætir við að SÍMEY haldi áfram að vinna með fyrirtækinu Tækninám.is um ýmis tölvutengd námskeið á netinu sem bæði eru fyrir einstaklinga og fyrirtæki.

Eins og greint hefur verið frá hafa íslenskunámskeið verið afar vel sótt í vetur. Valgeir segir að vegna þess hversu íslenskukunnátta nemenda sé mismunandi hafi ekki reynst unnt að færa öll íslenskunámskeiðin á netið og því hafi þurft að fresta hluta þeirra.

Mikill skilningur á aðstæðum

Náms- og starfsráðgjafar SÍMEY hafa síðustu daga verið í nánu samstarfi við kennara og nemendur um þær breytingar sem óhjákvæmilegar voru og næstu skref. Hann segir að eftir sem áður séu starfsmenn SÍMEY ávallt reiðubúnir til að aðstoða fólk og leiðbeina því og hann hvetur nemendur til að láta í sér heyra til fá svarað þeim fjölmörgu spurningum sem á þeim brenni. Valgeir vill koma á framfæri þakklæti til allra hlutaðeigandi um mikinn skilning á aðstæðum og jákvæðni í að nálgast viðfangsefnið í breyttu ljósi.

Hægt er að fylgjast með námskeiðum og fréttum inn á heimasíðu Símey.

Sambíó

UMMÆLI