Skipulag Móahverfis formlega auglýstMynd: Akureyrarbær

Skipulag Móahverfis formlega auglýst

Á síðasta fundi bæjarstjórnar var tillaga að deiliskipulag Móahverfis samþykkt og að hún skuli auglýst samhliða aðalskipulagsbreytingu svæðisins. Um er að ræða nýtt íbúðasvæði sem rísa mun vestan við Borgarbraut í Síðuhverfi.

Í kjölfar ábendinga frá íbúum, umsagnaraðilum og öðrum hagsmunaaðilum hafa verið gerðar nokkrar breytingar á hinni upphaflegu tillögu, ásamt því sem vindgreining og frekari skoðun átti sér stað á svæðinu. Á vef Akureyrarbæjar er listi yfir tillögubreytingarnar sem áttu sér stað í kjölfar þessara athugana:

  1. Torg/dvalarsvæði flyst nær Borgarbraut ásamt byggingum í kring þar sem gert er ráð fyrir verslunar- og þjónustusvæði á jarðhæð og íbúðum á efri hæðum. Bætt er við aðkomu að þessari lóð frá Borgarbraut.
  2. Trjágróðri er bætt við á svæðum sem eru óvarin fyrir norðlægum vindáttum. Einnig eru gerðar breytingar á legu og lögun nokkurra fjölbýlishúsa, einkum meðfram Síðubraut, vegna niðurstöðu vindgreiningar.
  3. Formi, uppröðun og hæð fjölbýlishúsa er breytt lítillega á nokkrum stöðum sem hefur í för með sér að íbúðafjöldi eykst aðeins. Í heildina er gert ráð fyrir allt að 1.100 íbúðum á svæðinu.
  4. Gert er ráð fyrir íþróttasvæði syðst á skipulagssvæðinu þar sem mögulegt er að koma fyrir sparkvöllum eða samfelldu gras-/gervigrassvæði.
  5. Bætt er við undirgöngum undir Borgarbraut á móts við gönguás og grænt svæði sem liggur í gegnum mitt hverfið.

Nú hefur skipulagið formlega verið auglýst skv. skipulagslögum en auglýsinguna má nálgast hér. Tekið er á móti athugasemdum til og með 25. apríl næstkomandi.

Hér má sjá vefsvæði Móahverfis sem reglulega er uppfært.

UMMÆLI