Snorri í Betel krefst 13,7 milljóna frá Akureyrarbæ

Snorri í Betel.

Snorri Óskarsson, betur þekktur sem Snorri í Betel, hefur stefnt Akureyrarbæ í annað sinn vegna uppsagnar sinnar, en Snorri var rekinn úr starfi kennara í Brekkuskóla árið 2012 vegna ummæla á heimasíðu sinni þar sem hann sagði samkynhneigð vera synd og þeirra sem það eru biði ekkert nema helvíti. Í febrúar í fyrra hafði Snorri betur í Hæstarétti þegar dæmt var honum í vil á grunni þess að uppsögnin hafi verið ólögmæt. Akureyrarbær hafði þá tapað bæði fyrir héraðsdómstóli og Hæstarétti og þurfti þá að greiða bæði málskostnað sinn og Snorra.

Greint er frá því í Fréttablaðinu í dag að nú krefjist Snorri þess að honum verði greiddar miskabætur vegna uppsagnarinnar og vangoldinna launa frá Akureyrarbæ. Hann fer fram á 13,7 milljónir í miskabætur.
„Það er eðlilegt að ég leiti réttar míns. Margsinnis hefur verið dæmt um að uppsögn mín var ólögmæt. Krafan mín nú hljóðar upp á um 13,7 milljónir króna fyrir tapaða vinnu. Síðan ef ég fæ ekki vinnu þá mun ég krefjast launa til sjötugs,“ segir Snorri í viðtalinu.

Snorri sakar Loga Má Einarsson, núverandi þingmann Samfylkingarinnar í norðaustur kjördæmi og fyrrum bæjarfulltrúa, um að vera manninn á bak við aðförina að sér. Hann segir Loga hafa verið fyrstan til að tjá sig um uppsögnina og fagna henni opinberlega ásamt því að eiginkona Loga sé verjandi Akureyrarbæjar í málinu sem Snorri höfðar nú gegn bænum.
Logi Már vísar þessu hins vegar á bug í samtali við Fréttablaðið og segir þessar ásakanir vera út í hött þar sem að hann hafi ekki setið í bæjarstjórn þegar Snorri var rekinn og hafi ekkert með uppsögn hans að gera, þó svo að hann hafi tekið henni fagnandi.

UMMÆLI