Staðfest smit í MývatnssveitMynd: Icelandictimes.com

Staðfest smit í Mývatnssveit

Einn íbúi í Skútustaðahreppi hefur fengið staðfestingu á Covid-19 smiti. Um er að ræða starfsmann á Icelandair hótelinu við Mývatn. Því hóteli hefur verið lokað en þar voru einnig fáir gestir. Samkvæmt tilkynningu frá sveitarfélaginu hefur nú verið tekin ákvörðun um að fella niður hefðbundið skólahald í leikskólanum Yl og Reykjahlíðarskóla. Mikið óvissuástand hefur skapast í sveitarfélaginu bæði vegna smitsins og einnig vegna þess að hátt í annar tugur íslenskra ferðamanna, sem dvöldu í Mývatnssveit síðustu helgi, hafa smitast af kórónuveirunni. Vegna þessa, og vegna hertra aðgerða heilbrigðisyfirvalda í dag, voru þessar varúðarráðstafanir teknar.

Tilkynninguna má lesa í heild sinni hér að neðan:
Kæru íbúar Skútustaðahrepps.

Viðbragðsteymi Skútutstaðahrepps fundaði tvisvar í dag ásamt forstöðumönnum, formanni skólanefndar og fulltrúa HSN. Í kjölfar tilkynningar heilbrigðisráðherra nú seinni partinn hefur eftirfarandi ákvörðun verið tekin í samræmi við viðbragðsáætlun Skútustaðahrepps.

Í fyrsta lagi vegna hertari aðgerða heilbrigðisyfirvalda í dag, í öðru lagi vegna þess að nú er staðfest a.m.k. eitt smit hjá íbúa sveitarfélagsisins og í þriðja lagi vegna þess að staðfest er að hátt í annar tugur af íslenskum ferðamönnum sem dvöldust í Mývatnssveit um síðustu helgi er smitaður af kórónuverunni, þá liggur fyrir að mikið óvissuástand hefur skapast í sveitarfélaginu. Til þess að gæta ítrustu varúðarráðstafana gagnvart viðkvæmustu íbúum sveitarfélagsins og til að forðast frekari smithættu og hefta frekari útbreiðslu kórónuveirusmits hefur sú ákvörðun verið tekin að fella niður hefðbundið skólahald bæði í leikskólanum Yl og Reykjahlíðarskóla frá og með morgundeginum um óákveðinn tíma. Jafnframt hefur verið ákveðið að íþróttamiðstöðinni verði lokað um óákveðinn tíma.

Kennarar Reykjahlíðarskóla munu halda úti fjarkennslu með verkefnum á þeim stafræna vettvangi sem þeir hafa valið og munu senda frá sér nánari fyrirmæli og leiðbeiningar á morgun í tölvupósti. Vinsamlegst ræðið þessar nýju upplýsingar við börnin og útskýrið fyrir þeim að nemendur komi til með að vinna að verkefnum heima. Tónlistarkennsla verður áfram í formi fjarkennslu.
Viðbragðshópurinn og forstöðumenn munu halda áfram að hittast reglulega, afla upplýsinga og endurmeta stöðuna hverju sinni og halda íbúum sveitarfélagsins vel upplýstum.

Nemendur og starfsfólk leik- og grunnskóla Skútustaðahrepps hefur staðið mjög vel á erfiðum tímum.  Nýjar áskoranir koma upp á hverjum degi en með samtakamætti og auðmýkt  tekst okkur að komast í gegnum þennan skafla.

Gangi ykkur vel í ykkar verkefnum. Hikið ekki við að hafa samband til að fá nánari upplýsingar.

Þorsteinn Gunnarsson,
sveitarstjóri

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó