Stærsta útskrift Menntaskólans á Akureyri

Stærsta útskrift Menntaskólans á Akureyri

Mánudaginn 17. júní var Menntaskólanum á Akureyri slitið í 139. sinn en í ár voru tveir árgangar útskrifaðir. Þetta er í fyrsta sinn sem að bæði þriðji og fjórði bekkur útskrifast en nú hefur framhaldsskólanum verið breytt í þriggja ára nám. Alls voru 330 stúdentar útskrifaðir á mánudaginn.
Í vetur voru nemendur skólans 736. Nemendur á fyrsta ári voru 190, á öðru ári 205, á þriðja ári 187, á fjórða ári 154, útskrifaðir stúdentar eru því 330. 

Dúxar útskriftarnema með 9,86 og 9,66 í meðaleinkunn

Hæstu einkunn í fyrsta bekk hlaut Rakel María Ellingsen Óttarsdóttir, 9,5  Hæstu einkunn í öðrum bekk hlaut Birta Rún Randversdóttir, 10,0  Hæstu einkunn í þriðja bekk hlaut Katrín Hólmgrímsdóttir, 9,9  Hæstu einkunn í fjórða bekk hlaut Hrund Óskarsdóttir, 9,8. Þetta eru meðaleinkunnir þessa skólaárs, stúdentsprófseinkunn er meðaltal allra einkunna öll árin. Meðaleinkunn á stúdentsprófi í fjórða bekk var 7,64 og meðaleinkunn á stúdentsprófi í þriðja bekk var 7,62. 

Dux í fjórða bekk, með hæstu einkunn á stúdentsprófi, er Hugrún Ingólfsdóttir með 9,66 og í þriðja bekk Katrín Hólmgrímsdóttir með 9,86. Semidux í fjórða bekk er Birkir Freyr Andrason með 9,64 og í þriðja bekk Unnur Lilja Arnarsdóttir 9,56.

Stúlkan sem slasaðist alvarlega á Dimmiteringu nemenda kom í útskriftina

Jón Már Héðinsson, skólameistari, hóf ræðu sína á hátíðinni með að nefna þessi tímamót í MA þar sem tveir árgangar voru brautskráðir, síðasti fjórði bekkurinn og fyrsti þriðji bekkurinn. Hann sagði alla hafa verið minnta á hvað lífslínan sem við þræðum líf okkar eftir er örmjó þegar nemandi skólans slasaðist mjög alvarlega á dimissio. En gæfan var með í för og betur fór en á horfði því stúlkan brautskráðist með bekkjarfélögum sínum á mánudaginn. Skólameistara var ofarlega í huga þakklæti til þeirra sem brugðust við á slysstað og eftir slysið. Hann vildi sérstaklega þakka jákvætt og hughreystandi viðmót frá foreldrum nemandans. Slys gera ekki boð á undan sér og af þeim ber að draga lærdóm og það ætlum við að gera í MA, sagði hann.

Fjölmenni kom saman í miðbænum að fylgjast með nýstúdentum marsera

Akureyringar flykktust niður í miðbæinn skammt fyrir miðnætti á mánudaginn til að fylgjast með nýstúdentum marsera á torginu. Þrátt fyrir kalt og blautt veður var mæting góð og Hvanndalsbræður spiluðu undir meðan stúdentar sungu hástöfum lög sem kennd eru við Menntaskólann, Heimaleikfimi og Hesta-Jóa meðal annars.
Hvítukollarnir áttu miðbæinn þetta kvöldið enda aldrei verið jafn margir hvítir kollar og nú.

Nánar um athöfnina, ávörp afmælisstúdenta og verðlaun sem veitt voru á athöfninni má nálgast á heimasíðu skólans, með því að ýta HÉR.


UMMÆLI

Sambíó